Innlent

Samfylkingin er enn stærst í borginni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Dagur B. Eggertsson kynnti konsningaáherslur Samfylkingarinnar í Reykjavík í Gamla bíó.
Dagur B. Eggertsson kynnti konsningaáherslur Samfylkingarinnar í Reykjavík í Gamla bíó. Vísir/ernir
Sjö stjórnmálaflokkar fengju kjörna fulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur ef kosið væri nú. Þetta sýnir ný skoðanakönnun sem Fréttablaðið og frettabladid.is hafa gert. Samfylkingin fengi 32 prósent atkvæða og yrði stærsti flokkurinn í borgarstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn fengi rétt rúmlega 26 prósent og yrði næststærsti flokkurinn. Píratar yrðu svo þriðji stærsti flokkurinn með rúm 10 prósent. VG fengju 7,5 prósent, Viðreisn rúm 6 prósent, Miðflokkurinn rúm 5 prósent, Framsóknarflokkurinn 3,6 prósent, Flokkur fólksins 3,1 prósent og Sósíalistaflokkur Íslands 2,3 prósent.

Yrðu þetta niðurstöðurnar myndi Samfylkingin fá níu fulltrúa kjörna í borgarstjórn, Sjálfstæðisflokkurinn fengi sjö, Píratar og VG myndu fá tvo fulltrúa hvor flokkur og Viðreisn, Miðflokkurinn og Fram­sóknar­flokkurinn fengju einn mann hver flokkur. Hvorki Flokkur fólksins né Sósíalistaflokkurinn fengju fulltrúa. Yrði þetta niðurstaðan væru flokkarnir sem nú mynda meirihluta í borgarstjórn og bjóða fram að nýju, það er Samfylkingin, Píratar og VG, með samtals 13 af 23 borgarfulltrúum.

Næst Sósíalistaflokknum að stærð er Kvennahreyfingin með 1,9 prósent, 0,3 prósent nefna Höfuðborgarlistann og 0,3 prósent nefna Frelsisflokkinn. Þá nefndi 0,1 prósent Alþýðufylkinguna.

Hringt var í 1.987 manns með lögheimili í Reykjavík þar til náðist í 1.500 samkvæmt lagskiptu úrtaki dagana 23. og 24. maí.

Svarhlutfallið var 75,5 prósent. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir aldri. Alls tóku 62,1 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar. Þá voru slétt 10 prósent sem sögðust ekki ætla að kjósa eða ætla að skila auðu, 18,4 prósent sögðust óákveðin og 9,6 prósent vildu ekki svara spurningunni. Rétt er að taka fram að vikmörkin í könnuninni eru á bilinu 0,18 til 2,36 prósent.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×