Erlent

Sprenging á kanadískum veitingastað

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þessa mynd birti lögreglan í Mississauga af hinum grunuðu á Twitter-reikningi sínum.
Þessa mynd birti lögreglan í Mississauga af hinum grunuðu á Twitter-reikningi sínum. Twitter
Hið minnsta 15 særðust þegar heimagerð sprengja sprakk á veitingastað í kanadísku borginni Mississauga í nótt.

Lögreglan í borginni, sem er skammt frá Toronto, segir að tveggja manna sé leitað sem grunaðir eru um verknaðinn.

Þeir hafi sést yfirgefa indverska veitingastaðinn Bombay Bhel með hraði skömmu áður en sprengjan sprakk. Þeir eru nú í felum og hefur kanadíska lögreglan óskað eftir aðstoð almennings við að hafa uppi á þeim.

Á vef breska ríkisútvarpsins  segir að búið sé að flytja nokkurn fjölda á sjúkrahús, þar af séu þrír í lífshættu.

Fréttamenn kanadíska ríkissjónvarpsins segja að lögreglan sé með mikinn viðbúnað á svæðinu en að ekki sé vitað hvort að almenningi stafi einhver frekari hætta af mönnunum. Ekki liggi heldur fyrir á þessari stundu hvað vakti fyrir árásarmönnunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×