Erlent

Hefði getað dregið 26 milljónir til dauða

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá blaðamannafundi lögreglunnar þar sem fundurinn var kynntur.
Frá blaðamannafundi lögreglunnar þar sem fundurinn var kynntur. NESTATEPATROL
Lögreglan í Nebraska í Bandaríkjunum lagði hald á 54 kíló af verkjalyfinu Fentanýl á dögunum. Lyfið er eitt sterkasta verkjalyf á markaðnum en það er sagt vera hundrað sinnum sterkara en morfín og fimmtíu sinnum sterkara en heróín.

Misnotkun Fentanýls hefur færst í aukana undanfarið og þá sérstaklega í Bandaríkjunum þar sem rekja má hundruð dauðsfalla til notkunar lyfsins á síðustu árum. Fjöldi Íslendinga hefur að sama skapi látið lífið eftir neyslu Fentanýls. Umræðan um lyfið komst í hámæli þegar greint var frá því að poppstjarnan Prince hefði látist af ofneyslu Fentanýls í maí 2016.

Haldlagning lögreglunnar í Nebraska í síðasta mánuði er sögð vera eins sú stærsta í sögu baráttunnar gegn fíkniefnum vestanhafs. Stjórnvöld þar áætla að styrkleiki Fentanýlkílóanna 54 hafi verið nógu mikill til að draga 26 milljónir manna til dauða, eins og greint er frá á vef breska ríkisútvarpsins.

Efnin eru sögð hafa fundist í falinni hirslu á flutningabíl. Ökumaður og farþegi bílsins hafa verið handteknir.

Kolbeinn Guðmundsson, yfirlæknir hjá Lyfjastofnun, sagði í samtali við fréttastofu árið 2016, skömmu eftir að ungur maður fannst látinn í Reykjavík eftir neyslu Fentanýls, að lyfið væri öflugt en hefði hættulegar aukaverkanir. „Það getur valdið mikilli hömlun á öndun upp í heila. Við stóra skammta þá hreinlega hættir einstaklingurinn að anda og fer þar af leiðandi í hjartastopp,“ sagði Kolbeinn á sínum tíma.


Tengdar fréttir

Fentanýl gengur kaupum og sölum á Facebook

Umræða um lyfið fentanýl komst í hámæli eftir að ungur maður lést um síðustu helgi og annar missti meðvitund. Móðir manns sem lést vegna misnotkunar lyfsins árið 2013 segir Vog hafa brugðist.

Á sviðinu með Gísla Pálma fyrr um kvöldið

Rapparinn Gísli Pálmi Sigurðsson beitti skyndihjálp á vin sinn er hann missti meðvitund aðfaranótt sunnudags. Annar maður lést sama kvöld. Lögregla rannsakar hvort lyfið fentanýl hafi komið við sögu í báðum málum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×