Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: KR - KA 2-0 | Fyrsti heimasigur KR

Skúli Arnarson skrifar
vísir/bára
Það var leikið í sjöttu umferð Pepsi deildar karla á Alvogen-vellinum í Vesturbæ þegar KR sigraði KA með tveimur mörkum gegn engu. KR voru fyrir leikinn með sex stig eftir fimm umferðir eftir að hafa gert jafntefli í síðustu þremur umferðum. KA voru fyrir leikinn með fimm stig. Bæði lið þurftu því sigur í dag til að lyfta sér upp úr neðri helming deildarinnar.

KR skiptu um leikkerfi frá síðustu leikjum og ákváðu að spila með tvo framherja í dag, þá André Bjerregaard og Björgvin Stefánsson. Þeir höfðu aldrei áður báðir byrjað í deildinni.

Leikurinn fór rólega af stað og var lítið um færi í fyrri hálfleik. KR menn voru meira með boltann en áttu erfitt með að skapa sér alvöru marktækifæri. Það fengu þeir hinsvegar á lokamínútu fyrri hálfleiks þegar Óskar Örn sendi boltann fyrir markið þar sem Björgvin Stefánsson tók boltann niður og kláraði færið vel. Það var mikið högg fyrir KA að fá á sig mark svo stuttu fyrir hálfleik.

KA gerðu skiptingu í hálfleik en miðvörðurinn sterki, Guðmann Þórisson, gat ekki haldið áfram leik í síðari hálfleik og kom Steinþór Freyr Þorsteinsson inn á fyrir hann. Seinni hálfleikurinn var svipaður þeim fyrri, nánast engin opin marktækifæri. Það var þó á 57. mínútu sem  André Bjerregaard lagði boltann laglega á Kennie Chopart sem setti boltann niður í hægra hornið, óverjandi fyrir Aron Elí í marki KA, sem spilaði í dag í fjarveru Cristian Martinez.

Á 90.mínútu skoraði Ásgeir Sigurgeirsson mark, en var dæmdur rangstæður. Fleira gerðist ekki í leiknum og KR sigraði að lokum nokkuð örugglega.

 

Hvers vegna unnu KR?

KR voru betri aðilinn í dag og nýttu betur sín færi í dag. Þeir spiluðu oft á tíðum flottan fótbolta og er þessi frammistaða klárlega eitthvað sem Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, og KR liðið í heild sinni getur byggt ofan á. Varnarlega voru KR mjög flottir og náðu að halda hreinu í fyrsta sinn í vetur. Það verður þó að gefa KA mönnum það að þeir börðust allan leikinn og gáfu allt sem þeir áttu.

Hverjir stóðu upp úr?

Kristinn Jónsson var frábær í bakverðinu hjá KR, bæði varnarlega og sóknarlega. Aron Bjarki Jósepsson átti einnig frábæran leik og er að standa sig vel í fjarveru Skúla Jóns, miðvarðar KR, sem hefur verið meiddur í undanförnum leikjum. Annars var engin sem átti lélegan leik í KR liðinu í dag og var þetta góður liðs sigur hjá KR.

Hvað gekk illa?

KA gekk illa að skapa sér marktækifæri í dag. Beitir í marki KR þurfti í raun aldrei að taka á honum stóra sínum. KA liðið verður að skapa sér fleiri færi ef þeir ætla sér að vera í efri hluta deildarinnar þegar upp er staðið.

Hvað gerist næst?

Næsti leikur KR er gegn Breiðablik í Mjólkurbikarnum þann 30.maí. Þeir ættu að geta byggt á þessari frammistöðu í þeim leik og náð að sigra Blikanna sem hafa þó verið að spila mjög vel það sem af er sumars. KA leika gegn FH í Mjólkurbikarnum fimmtudaginn 31.maí og verða þeir að eiga betri leik en þeir áttu í dag til að komast áfram í næstu umferð Mjólkurbikarsins.

 

Björgvin: Mjög góður leikur að okkar hálfu

„Þetta var mjög góður leikur að okkar hálfu. Það er gott að ná í þrjú stig og halda hreinu. Við erum búnir að lenda undir í öllum leikjum hingað til þannig að þetta var bara mjög gott,“ sagði Björgvin Stefánsson, annar markaskorara KR liðsins í dag strax eftir leik.

Björgvin var ánægður með spilamennsku liðsins í dag.  

„Mér fannst við halda boltanum betur en þeir og vorum mjög grimmir, unnum mikið af fyrsta og öðrum bolta og það held ég að hafi verið lykillinn í dag.“

Björgvin og Bjerregaard hafa ekki spilað áður saman frammi fyrir KR liðið og var Björgvin ánægður með þeirra samvinnu.  

„Mér fannst það ganga mjög vel. Við vorum tæpir að sleppa í gegn nokkrum sinnum í fyrri hálfleik. Við náum mjög vel saman og erum bara mjög ánægðir með okkar samstarf.“

„Við höfum verið að spila vel í síðustu leikjum en höfum ekki verið að ná í úrslit þannig að það er mjög ánægjulegt að þetta hafi dottið í dag,“ sagði Björgvin að lokum.  

 

Tufa: Þeirra gæði inn í vítateig sem skildu á milli í dag

Tufa, þjálfari KA, var að vonum svekktur í leikslok.

„Mín fyrstu viðbrögð eftir leik eru bara vonbrigði. Maður er alltaf svekktur að tapa leikjum en heilt yfir fannst mér þessi leikur bara í fínu jafnvægi. Þetta var jafn leikur allan leikinn og kannski voru það bara þeirra gæði inn í vítateig sem skildu á milli í dag. Heilt yfir er ekki yfir miklu að kvarta. Mér fannst við fá fín færi í stöðunni 0-0 en svo kemur þetta mark í lok fyrri hálfleiks sem gerir það að verkum að þeir losna við smávegis pressu í seinni hálfleik.”

Tufa var samt sem áður ánægður með baráttu KA í dag og hlakkaði til að sjá hvort að rangstaðan sem dæmd var á Ásgeir í lok leiks hafi verið réttur dómur.

„Mér fannst við gefa allt í þetta og jafnvel þegar nokkrar sekúndur voru eftir þá vorum við ekkert að gefast upp. Við skorum eitt mark sem verður gaman að sjá hvort að hafi verið rétt ákvörðun hjá línuverðinum, það voru þrjár mínútur eftir þá þar sem við hefðum getað sett annað markið.

Guðmann Þórisson var skipt út af í hálfleik. Túfa sagði það hafa verið vegna meiðsla.

„Hann fann eitthvað eftir til eftir samstuð í fyrri hálfleik og gat því miður ekki klárað leikinn.

 

Hallgrímur: Annaðhvort förum við að grenja eða gerum eitthvað í málunum

„Þetta er bara svekkjandi. Við spilum fínan leik og eins og Túfa sagði inn í klefa, ætli munurinn hafi ekki bara verið of mikil gæði hjá þeim inn í vítateig. Það eru búnir að vera ansi margir leikir núna sem við erum ekki sáttir með og við þurfum að fara að rífa okkur í gang,“ sagði Hallgrímur Jónasson, miðvörður KA, eftir leik.

Hallgrímur var þokkalega ánægður með spilamennskuna í dag.

„Spilamennskan var ágæt í dag en ég er ekkert himinlifandi. Staðan er erfið, við erum ekki á þeim stað sem við héldum að við yrðum og ætluðum okkur að vera. Það er tvennt í stöðunni, annaðhvort förum við að grenja eða gera eitthvað í málunum og það er það sem við ætlum að gera.“

 

Rúnar: Nauðsynlegur sigur

„Ég er mjög ánægður með að við héldum hreinu. Við vorum mjög þéttir í dag og gáfum KA mönnum fá færi. Sigurinn var kærkominn, við erum búnir að gera alltof mikið af jafnteflum í undanförnum leikjum,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, að leik loknum.

Rúnar talaði um að sigurinn í dag hafi verið nauðsynlegur.

„Þetta var eiginlega nauðsynlegur sigur ef við ætluðum að taka þátt í einhverri baráttu í efri hlutanum, eitt stig í öllum leikjum gefur voða lítið. Deildin er erfið og við þurfum að nýta heimavöllinn vel. Við spilum við hörku KA lið í dag og við þurfum að hafa okkur alla við og vera klárir í hvern einasta leik.“

Rúnar var mjög ánægður með samstarf Björgvins og Bjerregaard og segist vera að leita að ákveðnu jafnvægi í leik KR liðsins.

„Ég var ánægður með þá. Við erum að leita að ákveðnu jafnvægi í okkar leik. Við höfum verið að spila vel undanfarið og vera með yfirhöndina í einstaka leikjum en fáum alltaf á okkur mörk og skorum bara eitt.“

„Við vildum því aðeins bæta í sóknarleikinn og fá Pálma inn á miðjuna þar sem hann gæti hjálpað Finn varnarlega en verið tilbúinn að fara fram á við sóknarlega og verið svo með sterka sóknarmenn, bæði með hraða og styrk. Við erum með fullt af strákum sem geta skorað en það þarf að hafa einhverja sem verjast og einhverja sem sækja. Við fundum ágætis takt í þessu í dag og ég er ánægður með Bjögga og Bjerregaard í dag.

Rúnar segir að liðið geti byggt ofan á frammistöðuna í dag, sem og frammistöðu liðsins í undanförnum leikjum.

„Mér getum byggt ofan á þetta og ofan á síðustu leiki líka. Mér finnst við búnir að vera að spila vel undanfarið miðað við veðráttu og velli. Þetta hefur kannski ekki verið að falla með okkur, við höfum ekki nýtt færin okkar nægilega vel og alltaf fengið á okkur mark. Því þurftum við að breyta í dag og ég er ánægður með að við skildum hafa haldið hreinu, skorað tvö mörk og unnið.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira