Innlent

Fluttu vestur til að starfa við framúrstefnulegan banka á Þingeyri

Birgir Olgeirsson skrifar
Arnhildur Lilý Karlsdóttir og Arnar Sigurðsson, starfsmenn Blábankans á Þingeyri.
Arnhildur Lilý Karlsdóttir og Arnar Sigurðsson, starfsmenn Blábankans á Þingeyri. Vísir
Þróunarmiðstöðin Blábankinn tók til starfa í bænum Þingeyri í Dýrafirði vestur á fjörðum í september síðastliðnum. Um er að ræða frumkvöðlasetur sem miðar að samfélagslegri nýsköpun fyrir bæði heimafólk og gesti alls staðar að.

Parið Arnhildur Lilý Karlsdóttir og Arnar Sigurðsson og fluttu til Þingeyrar í fyrra til að reka Blábankann, frumkvöðlasetur þar sem fólk tekur þátt í að þróa ný verkefni á staðnum, meðal annars að finna nýstárlegar leiðir til að halda þjónustu gangandi, styðja við frumkvöðlaverkefni innan og utan Þingeyrar og búa til skapandi samfélag bæði skírskotun bæði innan og utan staðarins.

Vísir heimsótti Blábankann fyrr í mánuðinum þar sem Arnhildur og Arnar voru tekin tali en þau sögðu að ef Vestfirðir ætli sér að vera leiðandi verður að vera sterkt fólk á staðnum til að leiða þá. Þetta fólk gæti jafnvel fundið hugmyndum sínum farveg í Blábankanum og stuðlað þannig að fjölbreyttu atvinnulífi á Vestfjörðum.

Vinnuaðstaða á efri hæð Blábankans á Þingeyri.Aðsend.
Á tímum þar sem stjórnmálamenn leita uppi atvinnutækifæri sem eiga að veita mörg störf í iðnaði sem leitast eftir því að fækka störfum, þá sé þarft að hugsa til þess hvort framþróun muni eiga sér stað á Vestfjörðum eða náttúruauðlindir þeirra einungis nýttar.

Munu Vestfirðingar tapa fyrir róbótunum, eða búa þá til? Það er spurningin sem sem lifði eftir þetta áhugaverða spjall við þau Arnhildi og Arnar á Þingeyri. Þau eru uppalin í Reykjavík og höfðu því ekki tengsl við Þingeyri áður en þau fluttu þangað síðastliðið haust.

Vinna að sínum verkefnum í litlu þorpi

Arnar hefur komið víða við á sínum ferli, starfað við kvikmyndagerð og stofnaði ásamt öðrum fyrirtækið Karolina Fund sem margir kannast við. Hefur hann því verið tengdur skapandi vinnu og frumkvöðlastarfi.

Arnhildur er bókmenntafræðingur að mennt og jógakennari. Hún hefur unnið við verkefnastjórnun og tekið að sér ýmis verkefni. Meðfram störfum við Blábankann hefur Arnhildur einnig kennt jóga á Þingeyri sem er vel sótt af heimamönnum.

„Við höfum búið víða um veröld og ég hafði kynnst Þingeyri í gegnum listavinnustofurnar hjá Simbahöllinni og verið með í hugmyndavinnu varðandi eitthvað svipað og hjá Blábankanum. Okkur langaði að prófa að búa í öðru umhverfi. Við erum bæði í hlutastarfi við Blábankann og þess fyrir utan með okkar eigin verkefni,“ segir Arnar.

Hann segir verkefnin sem þau vinna að ekki krefjast þess að þau séu bundin við einhvern stað. „Við getum notið þess sem svona lítið þorp hefur upp á að bjóða og líka unnið að okkar hugðarefnum,“ segir Arnar.

Arnhildur segir flutningana á Þingeyri hafa verið tilvalda fyrir þau á þessum tíma í þeirra lífi.

„Við vorum til í að breyta til. Við höfðum ekki búið að litlum stað áður, þetta er spennandi verkefni og snertir á hlutum sem við höfum komið að áður. Þetta bara small saman.“

Arnar og Arnhildur segjast ekki eiga heiðurinn að hugmyndinni um Blábankann. Sú hugmynd hafði fæðst í Simbahöllinni á Þingeyri sem frumkvöðlar hafa sótt.

Einnig hafi samfélagslega sinnaðir fjárfestar sett sitt mark á Blábankann, til að mynda þeir sem standa að fjárfestingarfyrirtækinu Vestinvest, sem er stofnandi Blábankans ásamt Ísafjarðarbæ og Simbahöllinni.

Gerðu samning við Landsbankann

Hugmyndin hafði sprottið út frá því hvernig væri hægt að halda úti góðri þjónustu í þorpinu. Úr varð skemmtilegur bræðingur þar sem húsið sem Blábankinn er í stóð autt. Landsbankinn hafði verið þar með þjónustu eftir að hafa tekið yfir Sparisjóðinn, en til stóð að leggja niður útibúið. Landsbankinn gerði samning við Blábankann þess efnis að Landsbankinn skaffaði húsið ef að Blábankinn myndi veita Þingeyringum bankaþjónustu á vegum Landsbankans.

„Við erum því bæði samfélagsþjónusta en líka nýsköpunarmiðstöð,“ segir Arnar en í Blábankanum fást einnig bækur frá bókasafni Ísafjarðarbæjar sem Þingeyringar geta fengið lánaðar.

Frá því Blábankinn tók til starfa í september í fyrra hafa 55 einstaklingar nýtt sér frumkvöðlaaðstöðuna þar, allt frá einum degi og upp í nokkrar vikur í senn. Á árinu 2018 eru það 36 sem hafa nýtt sér Blábankann.

Frá öllum heimshornum

Þegar Vísir kíkti í heimsókn var þar að störfum par frá Noregi sem á ættir sínar að rekja til Indlands. Fyrirtækið þeirra heitir PenguinUp og miða að því að útbúa forrit sem auðveldar samflot, eða forrit þar sem fólk getur komið sér saman um að samnýta bílferðir.

Þar sem parið var að störfum mátti sjá ummerki eftir Japanann Yasuaki Tanago sem hafði dvalið við Blábankann í vetur. Nýtti hann lærdóm frá byggðaþróun í Japan, meðal annars hvernig þorp hafa fundið leiðir til að endurskilgreina sig eftir að grundvallaratvinnuvegir hafa hnignað. Er hann að reyna að finna út hvort nýta megir hugmyndir þaðan á Þingeyri.

Búa til samfélag og jarðveg

Á Íslandi er ávallt verið að leitast eftir að skaffa ný störf eða skapa jarðveg þannig að ný störf geti myndast út frá honum. Spurð hvort að Ísafjarðarbær og samfélagið á Vestfjörðum hafi verið að standa sig í því að skaffa frumkvöðlum góðum jarðveg til að starfa í svarar Arnar að hann líti á það sem verkefni Blábankans að reyna að búa til samfélag og jarðveg.

„Verkefni sem byggja meira á hugmyndum og sköpun þurfa fyrst og fremst tíma og þolinmæði og jafnvel samfélög þar sem frumkvöðlar geta átt samtöl við fólk sem er að gera svipaða hluti,“ segir Arnar og bætir við:

„Auðvitað yrði það frábær saga að segja af Blábankanum ef að ungar manneskjur sem hafa alist upp hér kæmu með verkefni sín til baka og gætu búið hér. Þá mundum við segja að Blábankinn hefði tekist,“ segir Arnar.

Arnhildur segir að það megi vel vera að það hafi verið ein af hugmyndum ráðamanna fyrir vestan þegar Blábankinn var stofnaður, að búa til jarðveg fyrir nýjar hugmyndir, en hún hafi klárlega ekki verið sú eina. „Ef það verður útkoman munu þeir hrósa sér fyrir það. En tíminn mun bara leiða það í ljós.“

Frá vinnustofu í Blábankanum.Aðsend
Erfiðara að réttlæta óvissuna

Arnar segir að á stjórnmálasviðinu sé auðveldara að koma fram með verkefni með loforði um ákveðið mörg störf. „En það eru verkefni sem eru í hefðbundnara atvinnulífi. Að búa til eitthvað verkefni sem gengur meira út á að menn vita ekki hvernig það fer eða hvað kemur úr því, það er erfiðara fyrir stjórnmálamanninn að réttlæta það. En það er kannski akkúrat sem þarfnast þegar þú ert með fábreytni í atvinnulífinu og vantar að gera eitthvað sem er spennandi fyrir ungt fólk.“

Arnhildur er á því að betra sé að líta á slíka vinnu sem langhlaup, heldur en tilraun til að bjarga hlutunum á skömmum tíma.

„Það sem hefur gerst þennan stutta tíma sem Blábankinn hefur verið opinn er að það hefur orðið góð blöndun. Listamenn sem koma erlendis frá og fræðimenn og frumkvöðlar. Þetta hefur blandast út í samfélagið sem virðist vera mjög opið og tekur mjög vel á móti fólki,“ segir Arnhildur.

Frá ferðamálafundi í Blábankanum.Aðsend
Börnin taka eftir lífinu

Þau segja að krakkar á Þingeyri taki eftir því að það sé skapandi líf í kringum Blábankann og aðstaða til að starfa þar að nýjum hugmyndum. „Þetta er það sem er horft til þegar þau gera síðar upp hug sinn hvort þau vilji koma til baka eftir að hafa stundað nám,“ segir Arnar.

Blábankinn er opinn allt árið og þangað geta frumkvöðlar sótt með sínar hugmyndir, dvalið á Þingeyri og fengið einhvern stuðning. Núna í maí er sérstakur tími þar sem frumkvöðlar geta sótt hraðal Blábankans með leiðbeinendum frá Noregi og Reykjavík sem eru með miklar reynslu af því að aðstoða frumkvöðla við verkefni.

Í september næstkomandi verður skapandi dvöl á vegum listakonunnar Kitty Von Sometime.

Óviss hve lengi þau verða á Þingeyri

Eins og fyrr segir fluttu þau Arnhildur og Arnar á Þingeyri í september síðastliðnum en spurð hversu lengi þau ætla að vera á Þingeyri segjast þau hafa verið spurð að því ansi oft.

„Við höfum aldrei hugsað líf okkar þannig. Við erum þar sem eitthvað spennandi er í gangi. Tilveran núna og í framtíðinni er þannig að fólk fer á milli staða og hægt að vinna að sumum verkefnum á mörgum stöðum. Það er fólk sem á hús hérna en er ekki endilega allt árið en eru gildir þegnar í samfélaginu. Við erum ekki með einhvern tíma sem við ætlum að fara en erum samt ekkert endilega að skjóta rótum til áratuga,“ segir Arnar.

Arnhildur bætir við að Blábankinn eignist vonandi líf sem er ekki bundinn við veru þeirra. „Það yrði mjög óskandi að Blábankinn sé ekki það sem við stöndum fyrir. Blábankinn á að standa fyrri það sem hann stendur fyrir sjálfur.“

Þau segja Þingeyringa duglega að nota þjónustuna sem er boðið upp í Blábankanum og að sækja viðburði sem eru í húsinu. Blábankinn tekur einnig þátt í nokkrum nýsköpunarverkefnum innan Þingeyri og starfar Arnhildur með hópi af fólki í ferðaþjónustunni þar sem er unnið að áætlun til að ýta undir ferðaþjónustu á svæðinu.

„Mér finnst gott að hugsa um Blábankann sem stað til að leita til með spurningar og hugmyndir. Það er ekki þar með sagt að við tökum hugmyndirnar og framkvæmum þær. Við getum hins vegar hjálpað verkefninu áfram en ekki að það dagi upp hjá okkur. Þetta er dýnamískt samtal við þá sem vilja skapa eitthvað.“

Vantar úrræði fyrir barnafólk

Spurð hvort þau finni fyrir því að eitthvað vanti upp á hjá Ísafjarðarbæ nefnir Arnhildur að það vanti úrræði hjá bænum fyrir barnafólk sem vill koma vestur og vinna nokkra mánuði senn. „Barnafólk getur það ekki af því það er of stórt og kostnaðarsamt ferli að flytja börn á milli leikskóla. Þetta er mál sem við höfum nefnt við bæjarstjórann. Það eru ekki til staðar heimildir þannig að fólk geti flutt auðveldlega á milli, fólk sem er með börn á leikskóla verður að flytja lögheimili sitt hvert skipti,“ segir Arnhildur.

Arnar talar um að hann hafi upplifað það frá ráðamönnum að það sé auðveldara að réttlæta fjárfestingu sem er úr steinsteypu. „Og oft er það viðkvæðið að það sem fólk er að gera sé sjálfboðavinna, sérstaklega í skapandi geiranum. Ég held að okkar sýn sé svolítið að það sé einhver millivegur á milli þess að styðja við og fjárfesta það sem er við lýði og hefur verið lengi gegn því að fjárfesta í einhverju nýju og gera hlutina öðruvísi. Til lengri tíma er hættulegt að horfa ekki fram á við og finna nýjar leiðir því samfélagið og tíminn breytist bara og hlutirnir verða öðruvísi. Ef maður heldur áfram í því sem maður þekkir verður maður bara eftir á,“ segir Arnar.

Jákvæð fyrir laxeldi en með fyrirvörum

Mikil umræða er um laxeldi fyrir vestan og uppgang sem því getur fylgt. Arnar segist í grunninn vera jákvæður fyrir laxeldi en það sem skipti mestu máli, eins og við alla aðra atvinnuuppbyggingu, er hvort að það hafi í för með sér þróun fyrir samfélagið. „Eða hvort það sé verið að nýta einhverja náttúruauðlind án þess að það skilji mikið eftir sig. Það er það sem skiptir mestu máli held ég.

Arnhildur segir umræðuna vera á þeim nótunum að laxeldi sé eitthvað sem eigi að bjarga Vestfirðingum. „Það er svolítið gott á þeim forsendum en það þarf einnig að halda áfram á öðrum sviðum.“

Hér má sjá Harald Þóri Hugosson frá Genki Instruments með kynningu í Blábankanum.Aðsend
Reynt að fjölga störfum í iðnaði sem vill fækka þeim

Sem maður í frumkvöðlageiranum segist Arnar finna fyrir því að orðræðan í stjórnmálum sé á þann veg að eitthvað atvinnutækifæri eiga að skapa ákveðið mörg störf.

„Það er svolítið þversagnakennt, því að öll framþróun í tækni og atvinnuháttum gengur út að fækka störfum. Það er svolítið hættulegt, ef maður einblínir á að skapa sem flest störf þá er maður að fara út í iðnað sem er ekki endilega iðnaður framtíðarinnar,“ segir Arnar.

Lyftistöng eða plástur

Hann segir að spyrja þurfi hvernig Vestfirðingar munu taka þátt í framþróun í fiskeldi.

„Eru Vestfirðir fyrst og fremst staður sem er með náttúruauðlind eða verða þeir leiðandi í því og partur af því að koma þessu áfram. Það er eins og við sjáum þetta. Eitthvað sem skilur á milli þess hvort þetta er eitthvað sem lyftir svæðinu upp til lengri tíma eða hvort þetta er einhver plástur á eitthvað vandamál,“ segir Arnar.

Virðisaukning á Vestfjörðum

Hann segir að langbestu niðurstöðuna fyrir Vestfirði ef að hægt verður að blanda saman nýtingu á náttúruauðlind og framþróun í greininni. „Það væri hér á Vestfjörðum sem virðisaukningin fer fram þegar kemur að því hvernig fiskur er framleiddur, markaðssettur og seldur. Það verða róbótar sem gera hluta af þessum störfum og því er spurningin hvorum megin staðsetjum við okkur? Erum við að keppa við róbótana eða að búa þá til?,“ spyr Arnar.

Arnhildur segir auðvelt að stilla umræðuna um laxeldi upp í það að vera með eða á móti því. Hún segir hins vegar erfitt að tala um fjárfestingu í fólki því það getur reynst erfitt að sjá með beinum hætti hvað fæst úr því.

„Þú ert ekki gulltryggður að þú fáir eitthvað virðisaukandi en þú veist það ekki heldur nema þú takir áhættuna. Ef Vestfirðir ætla að vera leiðandi verða þeir líka að hafa sterkt fólk á bakvið sem getur leitt þá,“ segir Arnhildur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×