Erlent

Umfangsmikil leit í Kanada

Samúel Karl Ólason skrifar
Mennirnir á leið inn í veitingahúsið.
Mennirnir á leið inn í veitingahúsið. Vísir/AP
Lögreglan í Mississauga, Kanada, leitar nú tveggja manna sem gerðu sprengjuárás á indverskan veitingastað í borginni í gær. Fimmtán særðust í árásinni og þar af eru þrír í alvarlegu ástandi. Samkvæmt lögreglunni gengu tvær grímuklæddir menn inn á veitingastaðinn skildu sprengjuna þar eftir og hlupu á brott.

Tvær veislur stóðu þá þar yfir og voru börn á staðnum. Ekkert barn sakaði þó í árásinni. Lögreglan segir sprengjuna hafa verið fulla af sprengjubrotum.

Lögreglan segir málið ekki rannsakað sem hryðjuverk, né sem hatursglæpur, að svo stöddu, en það geti breyst, samkvæmt frétt CBC. Tilefni árásarinnar liggur ekki fyrir en umfangsmikil leit að mönnunum stendur nú yfir. Nærliggjandi vegum var lokað og er fjöldi lögregluþjóna á götum borgarinnar.

Mississauga er sjötta stærsta borg Kanada með um 700 þúsund íbúa. Hún er í um 32 kílómetra fjarlægð frá Toronto þar sem tíu dóu og fimmtán særðust þegar bíl var ekið á hóp fólks í borginni. Alek Minassian hefur verið ákærður fyrir tíu morð og þrettán morðtilraunir vegna árásarinnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×