Innlent

Leiðtogar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks á síðustu stundu í Víglínunni

Samúel Karl Ólason skrifar
Nú þegar örfár klukkustundir eru þar til kjörstöðum verður lokað og fyrstu tölur berast frá borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík mæta þeir Dagur B. Eggertsson oddviti Samfylkingarinnar og Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í Víglínuna til Heimis Más Péturssonar fréttmanns. Þar fá þeir síðasta tækifærið til að sannfæra kjósendur um ágæti sitt og þeirrar stefnu sem þeir standa fyrir.

Kjörstaðir voru opnaðir víðast hvar klukkan níu í morgun og á flestum stöðum lýkur kosningu klukkan tíu í kvöld. Þótt aldrei hafi fleiri flokkar og framboð boðið fram í Reykjavík og nú, eða sextán, eru allar líkur á að niðurstaða kosninganna segi til um hvort það verði Samfylkingin með Dag B. Eggertsson eða Sjálfstæðisflokkurinn með Eyþór Arnalds sem leiðir næsta meirihluta í borginni. En kannanir hafa sýnt Samfylkinguna með átta til níu borgarfulltrúa af tuttugu og þremur og Sjálfstæðisflokkinn með sjö fulltrúa.

Óvissan er hins vegar meiri í kring um minnstu flokkanna; hvort það verði Framsóknarflokkurinn, Flokkur fólksins eða Sósíalistaflokkur Íslands sem nái inn kjörnum fulltrúa en útlit er fyrir að sjö framboð af tuttugu og þremur fái kjörna fulltrúa í borgarstjórn. Eftir kosningar fjölgar borgarfulltrúum úr 15 í 23 og því er þröskuldurinn til að ná inn fulltrúa lægri en áður eða á bilinu 2,6 til 4,2 prósent, allt eftir því hvernig atkvæði dreifast.

Víglínan er í opinni dagskrá og beinni útsendingu á Stöð 2 og Vísi kl. 12:20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×