Erlent

Kjósa um breytingu sem myndi heimila fóstureyðingar

Margrét Helga Erlingsdóttir og Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifa
Það er mikið í húfi fyrir írskar konur.
Það er mikið í húfi fyrir írskar konur. Vísir/afp
Írar kjósa í dag hvort afnema skuli stjórnarskrárákvæði sem kveður á um bann við fóstureyðingum. Kosningaþátttaka er góð og Leo, Varadkar, forsætisráðherra Írlands er bjartsýnn á að breytingin verði samþykkt.

Kjörstaðir loka klukkan tíu í kvöld. Talning hefst þá ekki fyrr en á morgun og úrslit því ekki ljóst fyrr en um helgina. Skoðanakannanir sýndu í fyrstu að þeir sem vilja leyfa fóstureyðingar væru með örugga forystu en bilið á milli hópanna tveggja hefur minnkað statt og stöðugt eftir því sem nær hefur dregið kosningunum. Nýjustu skoðanakannanir benda þó til þess að þeir sem vilji frjálsar fóstureyðingar hafi nauman meirihluta, Varadkar, forsætisráðherra, er á meðal þeirra.

„Það hefur verið góð kosningaþátttaka fram að þessu úti um allt land og ég vona að niðurstaðan verði „já“ en ég hvet alla til að kjósa. Ég held að góð þátttaka komi já-sinnum til góða. Ávinningurinn af góðum sólardegi á Írlandi er að fólk kemur út og kýs en gallinn er að eftir vinnu gæti það ákveðið að kjósa ekki en vonandi verður góð kosningaþátttaka,“ segir Varadkar.

Mannréttindasamtök hafa ítrekað bent á að bannið stríði gegn sjálfsákvörðunarrétti kvenna og geti stofnað lífi þeirra í hættu. Það var ekki fyrr en árið 2013 sem samþykkt var undanþága til að heimila fóstureyðingar ef meðganga ógnar lífi móður. Þá hefur það tíðkast að konur fari úr landi til að fara í fóstureyðingar og í örfáum tilfellum er það gert á hafi úti.

Steinunn Rögnvaldsdóttir, kynjafræðingur og annar tveggja höfunda bókarinnar Rof: Frásagnir kvenna af fóstureyðingum, segir, í samtali við Vísi, að það sé mikið í húfi fyrir írskar konur. Hún segir bannið koma verst niður á jaðarsettum konum, eins og innflytjendum og fátækum konum sem eiga erfitt með að ferðast til annarra landa til fara í fóstureyðingu.

Netverjar hafa verið duglegir við að tjá skoðun sína á kosningunum á Twitter. Undir myllumerkinu #hometovote hefur fólk lagt fram rök með og á móti og hvatt írska borgara til að nýta kosningaréttinn.


Tengdar fréttir

Kjörstaðir opnir á Írlandi

Kjörstaðir hafa nú verið opnaðir á Írlandi vegna þjóðaratkvæðagreiðslu um fóstureyðingar í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×