Lífið

Fluttu á Patreksfjörð eftir að hafa kolfallið fyrir firðinum

Birgir Olgeirsson skrifar
Aron Ingi Guðmundsson og Julie Gasiglia.
Aron Ingi Guðmundsson og Julie Gasiglia. Vísir
Á Patreksfirði býr parið Aron Ingi Guðmundsson og Julie Gasiglia. Í bænum reka þau rými í gömlu húsi sem var áður beitningarskúr en í rýminu halda þau listsýningar, eru með handverk til sölu og á efri hæðinni eru starfrækt vinnustofa fyrir fólk í skapandi geira.

Aron Ingi og Julie kynntust þegar Aron var við nám í Frakklandi. Julie fæddist í borginni Montpellier í Frakklandi en Aron sjálfur er frá Reykjavík. Hvorugt hafði einhverja tengingu við Patreksfjörð en þau ferðuðust þangað fyrir um fimm árum, horfðu eftir firðinum og hugsuðu með sér að þarna gætu þau hugsað sér að búa.

Leiðin lá engu að síður til London þar sem þau bjuggu í eitt ár en kunnu ekki við þann stressið sem fylgdi lífinu borginni þar sem var mikið stress, steinsteypa allt í kringum þau auk þess sem þau söknuðu Íslands.

„Við höfðum hugmynd um verkefni sem gekk út á að setja upp vinnustofu fyrir hönnuði,“ segir Aron. Þau sáu húsið Merkistein á Patreksfirði til sölu, sem er 120 ára gamalt timburhús, keyptu það og fluttu inn.

Þau opnuðu vinnustofu í Merkisteini sem fékk nafnið Húsið en ekki leið á löngu þar til þau fengu inn í annað hús á Patreksfirði. Um er að ræða Gömlu verbúðina niðri við höfnina sem þau fengu afhent í byrjun febrúar og opnuðu formlega 23. mars síðastliðinn.

Um er að ræða gamlan beitningaskúr sem nú er sýningarsalur og handverksbúð.Julie Gasigla
Reyna að fá bæjarbúa úr skelinni

Í Gömlu verbúðina starfrækja þau sýningarsal og handversbúð en þau vonast til að geta fengið bæjarbúa á Patreksfirði út úr skelinni til að skapa lista sem er hægt að sýna og selja.

Á efri hæðinni eru vinnustofur þar sem Julie er með aðstöðu fyrir vinnu sína tengdri innanhússhönnun en aðrir geta fengið þar inn ef eftir því er óskað.

„Það er hægt að leigja hér skrifstofurými í viku eða mánuði og um leið hægt að upplifa lífið í litlu þorpi og náttúruna í kring. Þetta getur verið blanda af fríi og vinnu,“ segir Julie.

Saman hafa þau staðið að listsýningum þar sem þau hafa fengið listamenn víðs vegar að til að sýna verk sín í Húsinu og halda kynningar á þeim um leið.

Einnig hafa þau staðið fyrir bjór- og vínsmökkunarkvöldum ásamt því að starfrækja ljósmynda- og bókmenntaklúbba.

Viðtökurnar mjög góðar

„Það lokar margt á Patreksfirði á veturna og ekki mikið í gangi. Við fundum það út að það vantaði samkomustað fyrir fólk á veturna og höfum verið að fá til okkar þverskurð af samfélaginu, fólk af öllum uppruna, bæði kyn og öllum aldri. Viðtökurnar hafa verið mjög góðar,“ segir Aron Ingi.

Þau voru með viðburði tengda Skjaldborgarhátíðinni og verða einnig með viðburði tengda sjómannadeginum og blúshátíð á Patreksfirði. Verkefnið Stelpur rokka fær einnig pláss hjá þeim og eru þau jafnframt að skipuleggja vinnustofu með listamanni í ágúst.

Julie segir það markmið þeirra að fá listamenn á svæðið til að miðla sinni þekkingu og reynslu til íbúa.

Aron segir að vonir þeirra standi til að með Húsinu gefist fólki færi á að stunda sína iðju á svæðinu og þurfi ekki að leita annað. „Og vonum að þetta smiti út frá sér og aðrir fari kannski að gera eitthvað sem tengist þessu og vinna saman.“

Julie Gasigla.
Annar valkostur fyrir krakka

Julie bendir á að fyrir utan skóla og íþróttir sé mjög lítið um afþreyingu og aðrar tómstundir fyrir börn. „Vonandi náum við að sýna þeim fram á að það er annað í boði í lífinu en skóli og íþróttir. Kannski náum við að gera þau forvitin,“ segir Julie.

Patreksfjörður er á suðursvæði Vestfjarða ásamt Bíldudal og Tálknafirði en hann segir þau gjarnan vilja eiga í samstarfi við fólk á norðursvæði Vestfjarða þar sem eru Þingeyri, Flateyri, Suðureyri, Ísafjörður, Bolungarvík og Súðavík.

Eins og fyrr segir þá var Gamla verbúðin beitningaskúr þar sem margir unnu við að beita. Þau segja þó nokkra sem störfuðu í skúrnum hafa litið við til þeirra og verið forvitnir um hvað væri í gangi á gamla vinnustaðnum.

„Þetta er sjarmerandi húsi og synd að nýta það bara undir geymslu,“ segir Aron.

Vantar fjölbreytni

Þegar kemur að lífinu á Patreksfirði og hvernig þau sjá samfélagið segir Julie að það vanti fjölbreytni þegar kemur að atvinnu. „Ég er ekki að segja að það sé létt að breyta því, en það er svolítið þannig að ef þú ert ekki í fiskvinnslu eða að vinna hjá bænum, þá er ekkert,“ segir Julie.

Aron segir að það mætti víkka sjóndeildarhringinn og sjá tækifærin í einhverju öðru en því sem tengist fiskvinnslu.

Julie segist hafa fundið fyrir því að þær stofnanir sem veita styrki horfi frekar til verkefna sem tengjast fiskvinnslu. „Sem er skiljanlegt að einhverju leyti því þetta hefur verið lengi og er öruggt í augum margra. En ég myndi vilja sjá eitthvað algjörlega öðruvísi sem hefur ekki tengsl við fiskvinnslu. Þá nærðu kannski meira jafnvægi á atvinnulífið.“

Þau segja nauðsynlegt að veita fólki von um að það sé hægt að starfa við eitthvað annað en fisk fyrir vestan. Þau fundu til dæmis fyrir því þegar þau fóru til Þingeyrar að þar var mun meira að gerast en á Patreksfirði. Á Þingeyri voru þau með Simbahöllina, Blábankann, hljóðfærasafn, vélasafn og upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn, í bæ sem er minni en Patreksfjörður.

Aron bendir til dæmis á að út frá vinnustofum á Þingeyri, þar sem listamenn og frumkvöðlar koma saman, hafi nokkrir ákveðið að setjast að á Þingeyri í einhvern tíma.

„Við höfum fundið það mjög sterkt að fólk að sunnan finnst aðlaðandi að koma hingað í smá tíma og vinna,“ segir Aron og bætir Julie við að í dag sé atvinna ekki endilega bundin við svæði, það er hægt að vinna allskonar störf ef fólk hefur aðgang að nettengdri tölvu, líkt og hún sjálf gerir á Patreksfirði.

Taka stökkið

Spurð hvort þau hafi ráðleggingar fyrir þá sem dreymir um að flytja úr borginni og út á land segja þau að einfaldast sé að taka stökkið í djúpu laugina líkt og þau sjálf gerðu og sjá ekki eftir.

„Það er ekki endanleg ákvörðun og hægt að prófa það í smá tíma,“ segir Aron Ingi og bætir við að nálægðin við náttúruna sé vel þess virði. Þá sé þeirra upplifun af Patreksfirði afar góð þar sem nálægðin er mikil við íbúa og auðvelt að fá hjálp við hvað sem er.

Julie segir að það sé öðruvísi að búa úti á landi. Ef einhver vill gera það þarf hann að búa sig undir að hafa ekki úrval af veitingastöðum eða afþreyingu, en það geti reynst vel. „Þú þarft að vera opinn fyrir þessari reynslu og tekur það góða með þér. Það er smá áskorun að aðlagast breyttu lífi en vel þess virði.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×