Erlent

Verkalýðsstéttin rís upp gegn Macron

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Mörg þúsund manns fjölmenntu í kröfugöngu víðsvegar um landið til höfuðs stórfelldum niðurskurðaráformum Emmanuels Macron, forseta Frakklands.
Mörg þúsund manns fjölmenntu í kröfugöngu víðsvegar um landið til höfuðs stórfelldum niðurskurðaráformum Emmanuels Macron, forseta Frakklands. vísir/afp
Mörg þúsund manns fjölmenntu í kröfugöngu víðsvegar um landið til höfuðs stórfelldum niðurskurðaráformum Emmanuels Macron, forseta Frakklands. Kröfugangan í París var fjölmennust.

Mótmælendur með vinstri flokka og verkalýðsfélög í broddi fylkingar eru æfir yfir áformum Macrons. Hann hefur boðað breytingar á frönsku vinnulöggjöfinni og stórfelldan niðurskurð. Til stendur að fækka stöðugildum hjá hinu opinbera um 120.000 á yfirstandandi kjörtímabili. Franskir lestarstarfsmenn hafa síðasta mánuðinn staðið í verkfallsaðgerðum. Macron hefur sagst ætla umbylta réttindum þeirra þannig að þau verði meira í ætt við aðrar starfsstéttir. Lestarstarfsmenn hafa hingað til notið ýmissa réttinda sem öðrum stendur ekki til boða eins og að fara fyrr á eftirlaun og vinna styttri vinnuviku.

Andstæðingar breytinganna segja að þetta snúist um pólitík. Franska lögreglan segir að 250 þúsund manns hafi verið í kröfugöngunni í París en fulltrúar verkalýðshreyfinga nefna mun hærri tölu.

Frakkar séu auðug þjóð

Jean-Luc Mélenchon, sem hefur látið til sín taka í mótmælum undanfarinna daga og bauð sig fram til höfuðs Macron í forsetakosningunum, gagnrýndi Macron harðlega og sagði hann ekki standa sig sem skyldi í embætti forseta. Mannekla væri í heilbrigðiskerfinu og ekki nægilega margir lögreglumenn væru að störfum í „erfiðari“ hverfum Parísar. Hann segir yfirvöld bera fyrir sig fjárskort en Mélenchon segir það af og frá.

„Við trúum ykkur ekki vegna þess að þið ljúgið,“ segir Mélenchon sem bendir á að peningarnir sem fóru í skattaívilnanir til handa þeim ríku hefðu komið að góðum notum í heilbrigðiskerfinu.

Mélenchon segir að landið sé auðugt og að mikilvægt sé að auðæfunum sé skipt með sanngjarnari hætti.

Gerard Collomb, innanríkisráðherra Frakklands, segir lögreglu hafa þurft að grípa inn í þegar hópur mótmælenda reyndi að rústa banka. Að sögn Collomb voru mennirnir hettuklæddir og sjö lögreglumenn meiddust í lögregluaðgerðinni. Lögreglan hefur handtekið 35 mótmælendur fyrir margvísleg brot, að því er fram kemur á vef Reuters.

Macron lætur engan bilbug á sér finna og hyggst halda breytingunum til streitu.


Tengdar fréttir

Lögreglan í París handtók 200 óeirðaseggi

Lögreglan í París hefur handtekið tæplega 200 manns sem höfðu unnið skemmdarverk á búðum og kveikt í bílum. Nota þurfti þrýstivatnsslöngur og táragas til að dreifa hópnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×