Innlent

„Ég ætlaði að koma með áttunda manninn með mér“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, ávarpaði flokksfélaga sína skömmu eftir miðnætti.
Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, ávarpaði flokksfélaga sína skömmu eftir miðnætti. vísir/rakel ósk
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík og oddviti Samfylkingarinnar, þakkaði flokksmönnum sínum fyrir hlýjar móttökur þegar hann mætti á kosningavöku flokksins í Austurbæ nú skömmu eftir miðnætti.

Samfylkingin er næststærsti flokkurinn í Reykjavík með sjö fulltrúa miðað við fyrstu tölur en Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur með átta menn inni. Meirihlutinn er fallinn verði úrslitin á þessa leið.

„Ég ætlaði að koma með áttunda manninn með mér en nóttin er ung. Þetta verður spennandi kosninganótt og þetta er búin að vera spennandi kosningabarátta ykkar vegna,“ sagði Dagur þegar hann ávarpaði flokksfélagana.

Hann hvatti sitt fólk til að vera upplitsdjarft og bjartsýnt og sjá hvað nóttin bæri í skauti sér. Þá kvaðst hann bera þá von í brjósti hægt væri að sameinast á breiðum grunni til framtíðar í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×