Innlent

Talið aftur í Hafnarfirði á morgun

Kjartan Kjartansson skrifar
Örfáum atkvæðum munaði á fimmta manni Sjálfstæðisflokks, þriðja manni Samfylkingar og oddvita VG.
Örfáum atkvæðum munaði á fimmta manni Sjálfstæðisflokks, þriðja manni Samfylkingar og oddvita VG. Vísir/Daníel
Yfirkjörstjórn í Hafnarfirði hefur samþykkt beiðni Samfylkingarinnar og Vinstri grænna um endurtalningu. Báðir flokkar tapa fulltrúum með aðeins örfárra atkvæða mun. Endurtalningin hefst síðdegis á morgun.

Samfylkingin tapaði einum bæjarfulltrúa og Vinstri græn sínum eina miðað við niðurstöður kosninganna í gær. Tíu atkvæði vantaði upp á að Samfylkingin næði inn einum fulltrúa til viðbótar og aðeins fimm að VG næði inn manni.

Þórdís Bjarnadóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Hafnarfirði, segir við Vísi að þessi mjói munur hafi verið rökin fyrir ósk flokkanna um endurtalningu.

Hún segir að endurtalningin hefjist kl. 17 á morgun. Hugsanlega gætu niðurstöðurnar legið fyrir um kl. 20 eða 21. Þórdís segir þó að kjörstjórnin renni nokkuð blinnt í sjóinn um hversu lengi talningin tekur.

Ógild atkvæði verða ekki skoðuð aftur en Þórdís segir að enginn ágreiningur hafi verið um mat kjörstjórnar á gildum og ógildum seðlum. Flokkarnir óskuðu heldur ekki eftir endurskoðun á þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×