Erlent

Stjórnarmyndun popúlista á Ítalíu farin út um þúfur

Kjartan Kjartansson skrifar
Conte sagði af sér áður en hann gat tekið við sem forsætisráðherra.
Conte sagði af sér áður en hann gat tekið við sem forsætisráðherra. Vísir/EPA
Guiseppe Conte, forsætisráðherraefni ítalskra popúlista, sagði af sér í dag eftir að forseti landsins hafnaði að staðfesta fjármálaráðherra í ríkisstjórn hans. Búist er við að boðað verði til nýrra kosninga í haust.

Popúlistaflokkurinn Fimm stjörnu hreyfingin og öfgahægriflokkurinn Bandalagið, sem báðir hafa efasemdir um Evrópusambandið, hafa reynt að mynda ríkisstjórn eftir þingkosningar sem fóru fram í mars. Tilnefning Conte á Paolo Savona, 81 árs gömlum fyrrverandi iðnaðarráðherra sem hefur lýst þátttöku Ítala í evrunni sem „sögulegum mistökum“, hafði verið umdeild.

Engu að síður var ákvörðun Sergio Mattarella forseta um að hafna tilnefningunni fordæmalaus í samtímasögu Ítalíu, að sögn The Guardian. Forseti Ítalíu á alla jafna að vera hlutlaus. Mattarella vísaði hins vegar til þess að skipan Savona ógnaði ítölskum fjölskyldum og borgurum því hún skapaði óvissu um efnahag landsins.

„Ég bað um að pólitískur leiðtogi með vald úr samstarfsflokkunum væri valinn í þetta ráðuneyti sem væri ekki álitinn fylgjandi stefnu sem gæti leitt til útgöngu Ítalíu úr evrunni,“ sagði Mattarella.

Ákvörðun Mattarella er talin geta valdið stjórnarskrárkreppu á Ítalíu. Hann segist ætla að íhuga kröfu Fimm stjörnu hreyfingarinnar og Bandalagsins um skyndikosningar.

Leiddar hafa verið að því líkur að forsetinn gæti beðið Carlo Cottarelli, fyrrverandi embættismann hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, um að leiða sérfræðingastjórn. Cottarelli kom til fundar við Mattarella í forsetahöllinni í dag.


Tengdar fréttir

Menntun Conte véfengd

Um leið og Fimm stjörnu hreyfingin og Bandalagið, popúlistaflokkarnir sem náð hafa samkomulagi um ríkisstjórnarmyndun á Ítalíu, tilkynntu að þeir vildu gera lítt þekkta lögfræðinginn Giuseppe Conte að forsætisráðherra voru stór spurningarmerki sett við menntun Conte.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×