Innlent

Erfitt fyrir Samfylkinguna að setja afarkosti

Sveinn Arnarsson skrifar
Oddvitarnir í borginni munu bera saman bækur sínar næstu daga.
Oddvitarnir í borginni munu bera saman bækur sínar næstu daga. Vísir/Vilhelm
Viðræður oddvita flokkanna sem náðu inn í borgarstjórn munu halda áfram í dag en óformlegar þreifingar áttu sér stað í gær. Fráfarandi meirihluti telur eðlilegast að sækja sér liðsstyrk til Viðreisnar og halda áfram meirihlutasamstarfi í borginni. Að mati aðila innan fráfarandi meirihluta er lítið sem ber í milli hjá núverandi meirihluta og borgarstjórnarflokki Viðreisnar í flestum stóru kosningamálunum sem bar á góma í kosningabaráttunni.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, er í afar ákjósanlegri stöðu til að mynda nýjan meirihluta og hefur í raun flest spil á hendi sér eins og staðan er núna.

Sjálfstæðisflokkurinn er aftur stærsti flokkurinn í borgarstjórn eftir þessar kosningar, hlaut yfir þrjátíu prósenta fylgi og átta borgarfulltrúa kjörna.

Ætli Sjálfstæðisflokkurinn hins vegar að komast í meirihluta í borgarstjórn þarf hann á liðsinni Viðreisnar að halda og gæti því þurft að gefa mikið eftir í viðræðum við Viðreisn.

Það sem kemur þó helst í veg fyrir þann meirihluta, að mati heimildarmanna Fréttablaðsins, er sú staða að hugmyndir Viðreisnar og Miðflokksins eru algjörlega á öndverðum meiði þegar kemur að framtíðarþróun borgarinnar í skipulags- og samgöngumálum.



Borgarfulltrúar í Reykjavík.Vísir/Gvendur
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, segir málin skýrast á næstu dögum. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins mun fráfarandi meirihluti setjast niður með Viðreisn nú í byrjun vikunnar og skoða fleti á mögulegu samstarfi. Dagur segir Samfylkinguna enn gera ráð fyrir að halda borgarstjórastólnum í slíku samstarfsmynstri. „Ég hef gengið út frá því en það eru engar viðræður hafnar,“ segir Dagur við Fréttablaðið.

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræðum við viðskipta- og raunvísindasvið Háskólans á Akureyri, segir stöðu Viðreisnar vera afar góða. „Samfylkingin er að tapa fylgi í kosningunum og kemur kannski ögn særð út úr þessum kosningum. Því yrði það erfitt fyrir Samfylkinguna að setja einhverja afarkosti um að flokkurinn haldi stóli ­borgarstjóra,“ segir Grétar. 

„Það verður áhugavert að sjá hvernig spilast úr þessu á næstu dögum en málefnalega sýnist manni svona í grófum dráttum að Viðreisn ætti auðveldara með að samsama sig þeim meirihluta sem var við völd á síðasta kjörtímabili.“

Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Reykjavík, má þakka fjölgun borgarfulltrúa úr 15 í 23 að hún hafi náð kjöri inn í borgarstjórn. Líf er sextándi borgarfulltrúinn í Reykjavík og hefði ekki náð inn í borgarstjórn væru borgarfulltrúar en 15 talsins.

VG hlaut ekki góða kosningu í sveitarstjórnarkosningum laugardagsins og missti til að mynda fulltrúa sína í Hafnarfirði og í Kópavogi. Einnig má nefna að flokkurinn náði ekki að manna framboð í kosningunum á Akranesi. Grétar telur aftur á móti að þessar kosningar muni ekki hafa mikil áhrif á flokkinn í ríkisstjórnarsamstarfi við Framsókn og Sjálfstæðisflokk.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×