Erlent

Lækka olíuverð til að friða vörubílstjóra

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Mótmælin hafa lamað samgöngur í Brasilíu.
Mótmælin hafa lamað samgöngur í Brasilíu. Vísir/afp
Forseti Brasilíu, Michel Temer, hefur ákveðið að lækka verð á díselolíu í landinu til að binda enda á mótmæli vörubílstjóra. Kyrrstæðir vörubílar á stærstu umferðargötum landsins hafa lamað samgöngur undanfarna daga með tilheyrandi afleiðingum fyrir brasilískan efnahag.

Gríðarlangar raðir hafa myndast á bensínstöðvum, hillur stórmarkaða eru víða tómar og lítið sem ekkert flugvélabensín er eftir á brasilískum flugvöllum.

Til að koma til móts við kröfur vörubílstjóra ákvað Brasilíuforseti að lækka verð á dísellítranum um 13 krónur. Í sjónvarpsávarpi sagði Temer jafnframt að nýja verðið muni gilda í 60 daga en verði svo endurskoðað á 30 daga fresti.

Ekki er vitað hvort vörubílstjórar taki í útrétta sáttahönd forsetans. Fjölmargir verkalýðsforkólfar kölluðu eftir því að mótmælin yrðu stöðvuð eftir að forsetinn hótaði að senda herinn á vörubílstjórana í síðustu viku. Þeir létu sér þó ekki segjast og hótuðu áframhaldandi mótmælum þangað til að olíuverð myndi lækka.

Olíverð í Brasilíu hefur tvöfaldast frá árinu 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×