Erlent

Þúsundir íbúa Flórídaríkis flýja heimili sín vegna Alberto

Gunnar Reynir Valþórsson og Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifa
Dökk ský eru nú yfir Flórída en búist er við því að stormurinn Alberto nái landi þar í dag.
Dökk ský eru nú yfir Flórída en búist er við því að stormurinn Alberto nái landi þar í dag. Vísir/Getty
Þúsundir íbúa Flórídaríkis í Bandaríkjunum hafa flúið heimili sín við ströndina en búist er við því að stormurinn Alberto nái landi þar í dag. Alberto hefur verið að sækja í sig veðrið á Mexíkóflóa undanfarna daga og stefnir nú hraðbyri í átt að Flórída og er óttast að hann geti gert þar mikinn usla.

Stormurinn var í um 165 kílómetra fjarlægð, suður af Apalachicola á miðnætti og mældist vindhraðinn þá um 105 kílómetrar á klukkustund. Þá fylgja miklar rigningar veðrinu sem gæti haft áhrif allt frá Mississippi og til Georgíu. Alberto er fyrsti stormurinn sem fær nafn á Atlantshafi þetta misserið, en yfirleitt er talað um að Fellibyljatímabilið hefjist fyrsta júní.

Mikil ferðahelgi var í Bandaríkjunum um helgina og er talið að fellibylurinn muni hafa töluverð áhrif á samgöngur í dag, samkvæmt frétt Reuters. Viðvörun var gefin út á laugardag og neyðarástandi lýst yfir í öllum 67 sýslum Flórída. Rick Scott ríkisstjóri Flórída sagði á Twitter að íbúar ættu alls ekki að hunsa tilmæli um að yfirgefa heimili sín vegna Alberto. Hann er með 5.500 viðbragðsaðila tilbúna í útkall ef þörf er á. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×