Fótbolti

Alfreð átti besta tímabil Íslendings í bestu deildum Evrópu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Finnbogason fagnar einu af tólf mörkum sínum fyrir Augsburg í vetur.
Alfreð Finnbogason fagnar einu af tólf mörkum sínum fyrir Augsburg í vetur. Vísir/Getty
Tölfræðisíðan Who Scored hefur verið að telja niður í HM í Rússlandi eins og aðrar fótboltavefsíður og fjölmiðlar.

Fólkið á síðunni hefur tekið saman pistil um hvert lið í keppninni þar sem eru teknir til þeir leikmenn sem koma heitastir inn á HM. Íslenska landsliðið er þar engin undantekning.

Þeir fjórir sem eru tilnefndir hjá íslenska landsliðinu eru Alfreð Finnbogason hjá Augsburg, Jóhann Berg Guðmundsson hjá Burnley og Emil Hallfreðsson hjá Udinese.

Who Scored fer eftir bestu tölfræðieinkunn leikmanna í einni af fimm bestu deildum Evrópu en það eru deildirnar í Englandi, á Spáni, á Ítalíu, í Þýskalandi og í Frakklandi.

Samkvæmt þessu átti Alfreð Finnbogason besta tímabil Íslendings í fimm bestu deildum Evrópu leiktíðina 2017-18.

Alfreð Finnbogason lék 22 leiki með Augsburg í þýsku deildinni og fékk 7,11 í meðaleinkunn hjá Who Scored síðunni. Jóhann Berg fékk 7,02 í meðaleinkunn fyrir 35 leiki með Burnley í ensku úrvalsdeildinni og Gylfi Þór Sigurðsson var með meðaleinkunn upp á 6,88 í 27 leikjum með Everton í ensku úrvalsdeildinni. Emil Hallfreðsson er síðan fjórði maðurinn á lista með 6,39 í meðaleinkunn.

Alfreð skoraði 12 deildarmörk fyrir Augsburg og átti þátt í þremur til viðbótar. Jóhann Berg kom að 10 deildarmörkum Burnley, skoraði tvö og átti átta stoðsendingar. Gylfi skoraði 4 mörk fyrir Everton og gaf 3 stoðsendingar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×