Handbolti

Einar Jónsson tekur við Gróttuliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Einar Jónsson.
Einar Jónsson. Vísir/Andri Marinó
Einar Jónsson þjálfar áfram í Olís deild karla í handbolta en hann hefur tekið við þjálfun meistaraflokks karla hjá Gróttu.

Einar hætti með Stjörnuna í vor en tekur við Gróttuliðinu af Kára Garðarssyni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Gróttu.

Stjörnumenn enduðu í sjöunda sæti undir stjórn Einars og komust í úrslitakeppnina þar sem liðið datt út á móti Selfossi. Gróttuliðið endaði tveimur sætum neðar í töflunni.

Einar Jónsson hefur þjálfað meistaraflokka í þrettán ár og var um tíma við þjálfun í Noregi. Hann gerði Fram að Íslandsmeisturum 2013 og undir hans stjórn varð kvennalið Fram bikarmeistari tvö ár í röð, 2010-2011.

Grótta hefur verið að missa frá sér leikmenn í sumar en nú eru þjálfaramálin komin á hreint og þá hefur Árni Benedikt Árnason einnig skrifað undir tveggja ára samning við handknattleiksdeild Gróttu.

Árni hefur spilað 200 leiki fyrir meistarflokk Gróttu og var fyrirliði Gróttu árin 2014-2017. Árni spilaði handbolta með Uppsala HK í Svíþjóð á seinasta tímabili.

Gróttumenn boða frekari fréttir af leikmannamálum hjá karlaliði Gróttu á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×