Innlent

„Það fæðast engir Vestmannaeyingar hérna“

Blaðamaður Vísis heimsótti Vestmannaeyjabæ í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna sem fara fram í lok mánaðarins.

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Blaðamaður Vísis heimsótti Vestmannaeyjabæ í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna sem fara fram í lok mánaðarins. Vísir/Einar
Eyjamönnum virðist líða vel, að minnsta kosti þeim sem blaðamaður Vísis náði að ræða við í stuttu stoppi, en það er spenna í loftinu vegna komandi sveitarstjórnarkosninga þann 26. maí. Mörgum finnst þó kominn tími á að hrista upp í hlutunum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið með hreinan meirihluta í bæjarstjórn Vestmannaeyja frá árinu 2006 þegar Elliði Vignisson tók við sem bæjarstjóri. 

Heilbrigðismál og samgöngumál eru ávallt ofarlega í huga Eyjamanna, enda einangrast Heimaey fljótt ef ferðir falla niður með Herjólfi. Skurðstofunni á sjúkrahúsinu var lokað árið 2013 og fyrir nánast alla sérhæfða læknaaðstoð þarf að leita upp á Norðurey, gælunafn sem Eyjamenn nota um meginland Íslands.

Elliði Vignisson, sitjandi bæjarstjóri, er bæjarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins en situr þó í fimmta sæti lista flokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Íris Róbertsdóttir, formaður ÍBV, leiðir klofningsframboð H-listans Fyrir Heimaey sem stofnað var eftir að ekkert varð af því sem hefði verið sögulegt prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Eyjum fyrr í vor. Njáll Ragnarsson sérfræðingur á Fiskistofu leiðir Eyjalistann, sameiginlegt framboð fólks úr Bjartri framtíð, Framsóknarflokki, Samfylkingu, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og óflokksbundnum að auki. 

Kosið er um sjö bæjarfulltrúa í Eyjum og samkvæmt nýjustu könnun Fréttablaðsins frá 23. apríl mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 41 prósent fylgi. Fyrir Heimaey mælist með 32 prósent og Eyjalistinn með rúm 25 prósent. Samkvæmt því fengi Sjálfstæðisflokkurinn þrjá menn kjörna, en hin framboðin tvö fengju tvo fulltrúa hvort. 

Veðrið lék ekki við blaðamann í stottu stuppi í Eyjum, en Vestmannaeyjabær er fagur engu að síður.Vísir/Einar

Ungt fólk áberandi

Sara Sjöfn Grettisdóttir, ritstjóri Eyjafrétta, segir að íbúar í Eyjum séu áhugasamir um komandi kosningar, klofningsframboðið valdi spenningi en að skortur sé á baráttumálum flokkanna.

„Fólk er almennt áhugasamt og það er nýtt fólk í framboði. Ef við tökum til dæmis fjögur efstu sætin á öllum listum þá eru bara tveir einstaklingar sem hafa áður verið í bæjarstjórn. Þannig það verður rosalega mikil endurnýjun í bæjarstjórn og miklar breytingar. En fólk er líka sammála um að þetta er ótrúlega frambærilegt fólk þannig að já, það er bara stemning fyrir þessu. Fólk er spennt að fylgjast með,“ segir Sara Sjöfn.

Sara Sjöfn Grettisdóttir, ritstjóri Eyjafrétta.
„Það er ótrúlega mikið ánægjuefni hversu mikið af ungu fólki er að taka þátt sem vill vinna fyrir bæinn sinn. Þetta eru öðruvísi kosningar heldur en fyrir fjórum árum með komu H-listans og þar með breytist kosningabaráttan talsvert. Í kringum mig er mikið af fólki sem bíður eftir að sjá og heyra hver málefnin verða hjá flokkunum og ætla svo að taka ákvörðun út frá því.“

Aðspurð segir Sara Sjöfn engin stór þrætuepli vera í bæjarmálunum í Eyjum. 

„Það er gott að búa í Eyjum og við höfum allt til alls. Bærinn er vel rekinn og um það eru öll framboðin sammála. Samgöngumálin eru búin að vera efst á baugi í langan tíma hérna og núna eru þau kominn í farveg með nýrri ferju og yfirtöku Vestmannaeyjabæjar á henni. En það er alltaf eitthvað sem má gera betur og núna finnst mér vera komin tími til að þrýsta á heilbrigðismálin hér í bænum og flugsamgöngurnar. Mín tilfinning er sú að það breytist kannski ekki mikið hvað varðar til dæmis hvernig heilsugæslan er rekin hérna, en þá eru aðrir þættir sem þarf að þrýsta á eins og varðandi sjúkraflugið og þess háttar.“

Gígja ÓskarsdóttirVísir/Hulda

Spenna í loftinu

Gígja Óskarsdóttir er 26 ára fædd og uppalin Eyjapæja. Hún starfar á söfnunum Safnheimum og Sæheimum. Hún segir að ungt fólk á sínum aldri sé spenntara fyrir kosningunum nú en áður.

„Já, þetta verður spennandi. Mér finnst þetta mjög spennandi kosningar og ég hef ekki fundið svona spennu áður í bæjarfélaginu,“ segir Gígja.

„Mér finnst bænum hafa verið stjórnað vel síðustu ár og í rauninni sé ég ekki þörf á einhverjum drastískum breytingum. Bæði reksturinn á bænum og annað hefur gengið mjög vel. Ég á lítið barn og það er margt búið að gerast í fræðslumálum. Það hafa verið miklar breytingar frá því að stelpan mín fæddist, þá var biðlisti eftir leikskólaplássum og annað. Hún er að verða fjögurra ára. Þannig að mér finnst margt mjög jákvætt hafa átt sér stað á þessu kjörtímabili.“

Heilbrigðismál og samgöngumál eru Gígju hugleikin, þá sérstaklega skortur á fæðingarþjónustu í Eyjum.

„Það er hægt að fæða barn en þú ert að taka svolitla áhættu því það er ekki starfandi skurðlæknir eða svæfingalæknir hérna og til dæmis mér datt það bara ekki til hugar. Ég fór til Reykjavíkur og við biðum þar frá áttunda júní til tuttugasta með tilheyrandi tekjutapi og slíku. Það er náttúrulega óboðlegt að geta ekki átt börnin sín í Vestmannaeyjum. Sjúkraþyrla væri kannski fyrsta skrefið, það gengur ekkert að fá skurðlækni eða svæfingalækni hingað.“



Ferðamennska stendur og fellur með Landeyjahöfn

Samgöngumálin eru einnig ofarlega í huga Gígju, eins og flestra Eyjamanna. Flestir nýta Herjólf í nær allar ferðir sínar upp á land.

„Heilbrigðismál og samgöngumál brenna rosalega mikið á okkur. Það er svolítið í höndum ríkisins en það er kannski bæjarins að veita aðhald að því og ég fagna því allavega að við séum búin að taka yfir reksturinn á Herjólfi. Mér finnst það jákvætt skref. Og mér finnst forgangsatriði að reyna að fá sjúkraþyrlu staðsetta á Suðurland, annaðhvort hér í Eyjum eða á Hvolsvelli. Bærinn ræður því ekki, en þeir geta pressað á það.“

Gígja segir samgöngur á milli lands og Eyja velta mikið á því hvort Herjólfur fari um Landeyjahöfn eða Þorlákshöfn. Það sjáist skýrt þegar litið er á straum ferðamanna til Eyja

„Þegar Landeyjahöfn opnar byrjum við að sjá ferðamenn með bakpoka hérna. Svo þegar hún lokar á veturna sjást þeir ekki lengur. En já, það er mjög mikið af ferðamönnum hérna yfir sumartímann og skipið nánast fullt allan daginn.“

Hún segir samfélagið njóta góðs af fjölgun ferðamanna, en að koma þeirra velti á samgöngumálunum, eins og margt annað í Eyjum.

„Fleiri matsölustaðir hafa opnað. Það er aukin þjónusta að einhverju leyti og innspýting í hagkerfið. En það er magnað að um leið og Landeyjahöfn lokar þá hættum við að sjá ferðamenn. Sem er í raun sorglegt af því það er svo stutt yfir.“



Ertu vongóð um að þetta batni með tilkomu nýrrar ferju?

„Ég get ekki verið annað en bjartsýn því ef maður er alltaf svartsýnn þá er allt frekar ömurlegt. Ég er jákvæð en það á bara eftir að koma reynsla á þetta og ég ætla ekki að vera neikvæð fyrr en ég sé til hvernig þetta gengur.“

Aðalheiður Sveinsdóttir Waage.Vísir/Hulda

Sami söngurinn en alltaf jafn alvarlegur

Á neðri hæð safnahússins í Eyjum er að finna bókasafnið. Þar ræddi blaðamaður við Aðalheiði Sveinsdóttur Waage bókavörð. Aðalheiður var, þegar blaðamaður náði af henni tali, ekki viss um hvað hún ætlaði að kjósa, en sagðist ætla að fylgjast vel með og bíða eftir áherslum framboðanna.

„Nú erum við með þrjá lista í boði. Það eru tveir frá Sjálfstæðisflokknum og einn Eyjalisti. Ég veit ekkert hvað ég á að kjósa. Hér er búið að ráða íhald alveg hreint árum saman, allt of lengi. Væri kannski kominn tími til að breyta,“ segir Aðalheiður.

Hún nefnir, líkt og Gígja, samgöngumálin.

„Fyrir okkur sem búum hérna þá er alltaf sami söngurinn og hann er alltaf jafn alvarlegur. Það er bara að komast hérna á milli.“

Bindurðu miklar vonir um að ástandið batni með tilkomu nýrrar ferju?

„Ég held ég geri það, já ég segi það bara. Við fáum fleiri ferðir og alls konar, vonandi getum við farið alltaf þegar okkur langar til.“



Mikilvægt að efla leigumarkaðinn

Hún segir samgöngumálin og heilbrigðismálin haldast í hendur fyrir Eyjamenn.

„Við erum með skurðstofu en hún er lokuð. Ég sé ekki sparnaðinn í því fyrir okkur. Ef einhver veikist alvarlega og þarf að komast í aðgerð hætt kominn þurfum við að panta sjúkravél frá Akureyri. Hver mínúta skiptir máli. Þetta er rosa flott vél, hún flýgur hratt og svoleiðis en ég fatta þetta ekki. Það er allt annað að geta skutlað manneskjunni inn á skurðstofu hér en ekki vera að fara út á flugvöll,“ segir Aðalheiður.

„Við fáum ágætis þjónustu en það fæðast engir Vestmanneyingar hérna, það þarf alltaf að fara upp á land út af svæfingalæknaveseni og skrifstofuveseni og allt það. Það er náttúrulega ekki gott. Ég myndi ekki vilja vera í fæðingu og það þyrfti að skutla mér til Reykjavíkur.“

Aðalheiður segir að miklar framkvæmdir séu í bænum en hún telji langsniðugast þegar litið er á húsnæðismál, að efla leigumarkaðinn.

„Það er verið að byggja alveg helling hérna. En auðvitað er langsniðugast og best fyrir alla að þeir geti fengið sér leiguíbúð og verið þar. Þurfa ekki alltaf að vera að kaupa. Þá er ég að tala um allt landið. Mér finnst það. Þá ertu ekki að eyða bestu árum ævi þinnar í að byggja og taka lán með tilheyrandi látum. Þetta á um alla á Íslandi.“



Stutt í óöryggi

Í bókabúð Eymundsson í plássinu náði blaðamaður tali af Kristbjörgu Sveinsdóttur. Hún sagðist litlar skoðanir hafa á kosningunum en að hún hefði ekkert á móti klofningsframboðinu Fyrir Heimaey, það kæmi með tilbreytingu í baráttuna.

„Það eru náttúrulega samgöngumálin og heilbrigðismálin. Samgöngur á milli lands og Eyja,“ segir Kristbjörg aðspurð um hvaða málefni séu henni mikilvægust.

Nú er bærinn að taka við rekstri Herjólfs og von á nýrri ferju, telurðu að það muni bæta ástandið í samgöngumálunum að einhverju leyti?

„Ég bara veit það ekki, ég get ekki svarað því. Vestmannaeyjabær segist ætla að auka ferðir hérna á milli og gera ýmislegt. Það verði þá betri samgöngur milli lands og Eyja.“

Hún nefnir einnig skort á skurðlækni og svæfingalækni í Eyjum sem mál sem megi bæta úr varðandi heilbrigðisþjónustu.

„Það er óöryggi í því að fólk sem slasast þurfi að bíða í marga klukkutíma eftir sjúkraþyrlu. Það getur verið hættulegt. Ég veit að þetta eru mál sem eru alltaf ofarlega í huga Eyjamanna.“

Magnús Sveinsson stóð vaktina á Olís.Vísir/Hulda

Telur bænum vel stjórnað

Úr bókabúðinni lá leiðin framhjá Kletti, bensínstöð Olís þar sem Magnús Sveinsson stóð vaktina bak við afgreiðsluborðið.

„Ég held að það sé á brattann að sækja fyrir alla. En ég er Sjálfstæðismaður og er og verð, enda hefur þessu samfélagi verið mjög vel stjórnað. Bara fyrir tólf árum áttum við ekki neitt og vorum í gjörgæslu en í dag eigum við góðar eignir og stöndum skil á öllu og skuldum lítið,” segir Magnús aðspurður um hvaða tilfinningu hann hefur fyrir kosningunum.

Líkt og aðrir sem blaðamaður ræddi við eru samgöngumálin ofarlega í huga Magnúsar.

„Samgöngumál og spítalamál heyra eiginlega ekki undir bæjarstjórn. En auðvitað þrýstum við á það eins og við getum og það er alltaf verið að vinna í því. En núna er þetta væntanlega komið meira í okkar hendur þegar við fáum Herjólf til umráða. Ég trúi því að það verði allavega, við þurfum að reyna okkur.“



Alltaf rúm til að gera betur

Hann segir að breytingarnar í samfélaginu í Eyjum síðustu ár séu af hinu góða.

„Ég veit hvernig þetta var og sé hvernig þetta er. Þegar menn voru farnir að selja eigur bæjarins til að geta átt fyrir launum og annað. Reyndar var gæfuspor þegar við seldum veiturnar rétt fyrir hrun. Við náðum að halda þeim peningum í gegnum hrunið. Svo ætluðu bankarnir að fara í mál við okkur en þeir höfðu það ekki. Það var gæfuspor, það var ekki sjálfgefið að halda peningum í hruninu. Menn hafa unnið vel úr því, borgað niður skuldir og framkvæmt. Við skuldum mjög lítið í dag, rekum gott fyrirtæki og eigum fullt af peningum.“

Er einhver þjónusta sem þyrfti að bæta að þínu mati?

„Auðvitað má alltaf gera betur en það er verið að byggja við barnaheimilin, það er verið að byggja við elliheimilið. Það vantar fólk til að vinna, til að byggja svo við getum gert meira. Hér á allt að vera í blóma.“



Góð þjónusta í gömlu húsnæði

Á dvalarheimilinu Hraunbúðum hafa staðið yfir breytingar, en nýverið opnaði ný álma fyrir heilabilaða. Blaðamann bar að garði þegar heimilismenn Hraunbúða voru í kaffi og fékk að setjast niður og spjalla. Þar voru flestir sammála um að aldraðir fái góða þjónustu í Hraunbúðum en að húsið væri gamalt og úr sér gengið. Húsnæðið var gjöf frá norskum félagasamtökum á vegum Rauða krossins eftir eldgosið í Eyjum þegar gamla dvalarheimilið Skálholt fór undir hraun og voru Hraunbúðir teknar í notkun árið 1974.

Þeir heimilismenn sem blaðamaður ræddi við höfðu lítið kynnt sér sveitastjórnarkosningarnar, en var eðli málsins samkvæmt annt um málefni aldraðra. Þeim þótti Elliði Vignisson hafa staðið sig vel að mestu leyti sem bæjarstjóri. Þeirra á meðal var Guðný Karlsdóttir, sem hefur búið í Eyjum í rúm sextíu ár.

„Nei, maður veit svosem hvernig þetta er allt. Ég held maður bara sleppi því að kjósa,“ sagði Guðný aðspurð um hvort hún hefði kynnt sér málefni framboðanna.



Gott að eldast í Eyjum

„Ég hef voða lítinn áhuga á þessu öllu orðið, eins og ég var æst. Þegar maður er orðinn svona gamall þá missir maður áhugann frekar. Æi mér finnst þetta allt sami rassinn undir þessu öllu. Ég held það sé orðið svo mikið bara stólarnir sem verið er að pæla í.“

Ertu ánægð með störf Elliða sem bæjarstjóra?

„Já, já. Ég hef svosem ekkert af honum að segja. Þekki hann ekki neitt. Já, já, er þetta ekki ágætis strákur? Það er svosem allt í lagi að skipta, ef maður fengi eitthvað betra. En ég veit það ekki, ég sé engan í fljótu bragði sem ætti að vera betri.“

Guðný segir að vel sé staðið að málefnum aldraðra í Eyjum og henni dettur ekkert í hug sem þurfi að bæta.

„Ekki hjá okkur, okkur líður voðalega vel hérna. Það er allt gert fyrir okkur sem hægt er. Það er gott að búa hér. Ég er búin að vera svo lengi. Mig langar bara að vera hér.“

Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum.Vísir/Hulda

Vöntun á málefnalistum

Í Eyjum er stórt og mikið sjúkrahús sem er hluti af heilbrigðisstofnun Suðurlands. Þar eru meðal annars heilsugæsla, sjúkrasvið og fæðingardeild meðal annars. Guðný Bogadóttir, er yfirhjúkrunarfræðingur á heilsugæslunni í Eyjum.

„Ég fæ góða tilfinningu fyrir þessu. Mér finnst ég eiga eftir að sjá málefnalista frá þessum flokkum. Mér hefur fundist það vanta. Það er svolítið mikið verið að tala um fólkið en ekki málefnin, fram að þessu. En það fer örugglega að breytast,“ segir Guðný.

Heilbrigðismálin eru Guðnýju að sjálfsögðu ofarlega í huga. 

„Sérstaklega málefni aldraðra, sem er stækkandi hópur í bæjarfélaginu. Mér finnst það þurfi að bæta við þjónustuna þar,“ segir Guðný.

„Sumt er stýrt sem bærinn hefur ekkert um að segja eins og til dæmis hversu mörg hjúkrunarrými eða dvalarrými eru á Hraunbúðum. Það er eitthvað sem er ákveðið af ríkinu og þeir borga með ákveðið mörgum plássum og þó að bærinn myndi örugglega vilja fjölga svoleiðis rýmum þá þarf að sækja það til ríkisins. Það er ákveðið kerfi sem þarf að breyta þá miðlægt hjá ríkinu. En það sem þarf að auka er meiri þjónusta við fólk í heimahús, félagslegt innlit og að fólk geti fengið meiri aðstoð heima.“

Guðný Bogadóttir.Vísir/Hulda

Sjúkraþyrla á Suðurlandi framtíðin

Guðný telur að bæjaryfirvöld mættu vera duglegri við að þrýsta á ríkið varðandi heilbrigðismálin í Eyjum.

„Svo veit maður aldrei hvað er að gerast bak við tjöldin. Ég held að það verði ekki sjúkraflug í framtíðinni heldur verði sjúkraþyrlur meira notaðar. Það verður eflaust ekki þyrla staðsett í Vestmannaeyjum þó það sé eitthvað sem maður myndi gjarnan vilja sjá. En kannski væri hún einhvers staðar á Suðurlandi. Í Noregi og víðar treysta dreifbýli meira á sjúkraflutninga með þyrlu. Það þarf náttúrulega að bæta það. Þegar skurðstofunni var lokað þá fór ákveðin öryggishluti í burtu.“

Síðan skurðstofan lokaði hefur fæðingum snarfækkað í Eyjum. Á síðasta ári fæddust þrjú börn í Eyjum.

„Konur mega alveg fæða hér, þá er talað um ljósmæðrastýrða fæðingu. Það er miðað við að það séu ekki frumbyrjur og ekki áhættufæðingar. Það voru þrjár fæðingar hérna á síðasta ári en konur upplifa það að baklandið er lítið ef eitthvað kemur upp á. Sérstaklega á veturna þegar samgöngur eru erfiðar. Þá treysta þær þessu ekki og velja að fæða börnin ekki hér. Þær taka frekar sénsinn á vorin og sumrin.“

Til að það þetta breytist þyrfti að opna skurðstofuna á ný.

„Þó það væri ekki fæðingarlæknir þá þyrfti að vera hægt að gera keisaraskurð. Þá þyrfti skurðlækni og fæðingarlækni og skurðstofu. Það væri náttúrulega bara frábært ef skurðstofa yrði opnuð aftur.“



Framför í umhverfismálum

En fyrir utan heilbrigðismálin eru umhverfismál einnig ofarlega í huga Guðnýjar.

„Það er búið að vera að gera ákveðna hluti. Sorpið hefur verið flokkað markvisst í nokkur ár. Síðan hefur fólk verið hvatt til að ganga betur um. Að þrífa og hreinsa og taka með sér plastpoka í göngur og svoleiðis. Þannig að það er búið að gera ýmislegt í sambandi við umhverfismál. Eins myndi ég vilja sjá að það yrði farið í að reyna að vernda ákveðin svæði og útrýma lúpínu í gamla hrauninu þar sem maður getur farið að týna ber. Og setja upp útivistarsvæði fyrir almenning og göngustíga og hjólastíga. Bæta alls konar svoleiðis hluti í Eyjum,“ segir Guðný.

„Það eru allir með samgöngurnar. Það er bara þannig. Það þarf eiginlega ekkert að tala um það,“ segir Guðný og hún segist vona að nýr Herjólfur og rekstur bæjarins á ferjunni muni bæta ástandið.

Aðspurð um hvers vegna Eyjamenn nýti sér ekki innanlandsflug meira en raun ber vitni segir Guðný það líklega vegna verðlags.

„Ég held að fólki finnist það of dýrt. Ég veit að sum stéttarfélög niðurgreiða flugið en ég held það sé bara verðið. Fólk horfi ekki á það sem valkost vegna verðsins. En ég held þeir séu að veita góða þjónustu.“

Til stendur að Vestmannaeyjabær taki við rekstri Herjólfs þegar ný ferja verður tekin í gagnið. Til stendur að hinn nýi Herjólfur taki við í haust.Vísir/Éinar

Skiptar skoðanir um Elliða

Á safninu Sæheimum hitti blaðamaður Margréti Lilju Magnúsdóttur, safnstjóra.  

„Ég held að Sjálfstæðisflokkarnir tveir verði svolítið stórir og taki jafnvel frá Eyjalistanum, sem mátti nú kannski ekki við því,“ segir Margrét Lilja.

Hún segir að spenna fyrir kosningunum sé henni fjarlæg, en að Elliði Vignisson bæjarstjóri sé umdeildur.

„Það eru mjög skiptar skoðanir um hann. Ýmist elskaður eða hataður. Hann er sterkur persónuleiki og liggur ekkert á skoðunum sínum. Ég held að ef hann stígur á tærnar á fólki þá verður fólk óánægt.“

Það eru líkt og fyrri daginn samgöngumálin sem eru fyrst nefnd. 

„Það er náttúrulega erfiðara að leysa þau. Þannig að kannski verður maður að hætta að nudda yfir því,” segir hún.

„En svo finnst mér rosalega brýnt að skoða heilbrigðismálin, ef konur eru ófrískar og eru komnar að fæðingu þá þurfa þær að fara til Reykjavíkur. Ég var að vinna á sjúkrahúsinu, byrjaði að vinna þar ’91. Þá var skurðlæknir og svæfingalæknir og lyflæknir og fjórir heilsugæslulæknar og það var skorið upp við öllu, hvort sem það var keisari eða botnlangi. Núna þarf að flytja suður fyrir botnlangaaðgerð, sem er bara fáránlegt. Þetta er ekkert öryggi því veðrin hérna geta verið svakaleg. Þá ertu farin að leggja líf sjúkraflutningamanna og hjúkrunarfólks í hættu, að vera að flytja sjúkling sem er ekki þannig bráðveikur, ef það er vont veður.“



Ekki nógu sterk öryggistilfinning

Hún segir aðkallandi að endurskoða sjúkraflutninga.

„Mér finnst í raun og veru ótrúleg þjónusta að bjóða upp á það að sjúkraflugið komið að norðan. Það á bara að vera þyrla í Vestmannaeyjum eða uppi á Hvolsvelli. Suðurlandið er með svakalegan fjölda ferðamanna. Þú ert með jöklana og alla þessa hættulegu staði. Viðbragðstíminn þarf að vera betri.“

Margrét segir önnur lögmál gilda um Eyjar en ýmsa aðra staði á landsbyggðinni vegna þeirrar miklu einangrunar sem fylgir því að búa á eyju.

„Ég bjó í smá tíma í Hveragerði og ég hef líka aðeins verið á Selfossi. Þessir staðir, það er miklu meira mannlíf hér en á þessum stöðum. Ég held það sé vegna þess að það er svo auðvelt að sækja viðburði og fara í verslanir bara yfir heiðina og til Reykjavíkur. Hérna erum við svolítið að búa til okkar og reyna að vera aðeins sjálfbær að þessu leyti. Við komumst ekkert upp með annað því samgöngurnar bara eru þannig. Það er, finnst mér, frekar skemmtilegt að búa hérna og viðburðaríkt og fjölbreytt. En maður getur alveg krullast af pirringi yfir þessum samgöngum. Og það er umræðuefni á öllum kaffistofum og öllum vinnustöðum í bænum,“ segir hún.

„Eins og það er gott að búa hérna, þegar það bjátar eitthvað á heilsufarslega eða eitthvað svona, þá erum við svolítið „shakey“. Það er ekki þessi öryggistilfinning sem maður vill hafa. Eins og bara ef það kæmi sjúkraþyrla á Suðurlandið þá væri öryggisstuðullinn farinn lengst upp miðað við hvað hann er núna.“



Ekki alltaf smekklegar breytingar

Önnur málefni sem eru Margréti hugleikin eru meðal annars umhverfismál.

„Ég er mjög ánægð til dæmis með það að fyrir nokkuð mörgum árum síðan var byrjað að flokka allt rusl og mér finnst það bara mjög ánægjulegt. Við erum ekki alveg eins miklir umhverfissóðar og við vorum fyrir bara tíu árum. En mér finnst ekki alltaf voða smekklegar breytingar sem er verið að gera hérna, eins og að troða Bónus í miðbæinn,“ segir Margrét.

Hún segir að eitthvað sé farið að bæra á húsnæðisskorti á leigumarkaði, eitthvað af íbúðum sé á leigu á AirBnB. Með nýrri ferju í rekstri Vestmannaeyjabæjar stendur til að fjölga ferðum upp á land þannig að Herjólfur gangi langt fram á kvöld.

„Ef þetta á að vera þannig að það verði ferðir fram á miðnætti þá mun það bara aukast ennþá meira held ég. Þannig við kannski sleppum við að byggja hvert hótelið á fætur öðrum.“



Landsmenn ganga til sveitarstjórnarkosninga þann 26. maí. Vísir kemur við víða um land í aðdraganda kosninganna. Á morgun er komið að Vestfjörðum.



Tengdar fréttir






×