Innlent

Efnismiðlun Góða hirðisins opnaði í dag: Margir munir sem geta öðlast framhaldslíf

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Það kennir ýmissa grasa í Sorpu við Sævarhöfða þar sem efnismiðlun Góða hirðisins opnaði í dag. Um er að ræða tilraunaverkefni sem hefur farið vel af stað að sögn rektstrarstjóra. Ágóði efnissölunnar mun renna til góðgerðarmála. Á markaðnum er að finna ýmsa muni sem að gætu vel öðlast framhaldslíf. Má þar meðal annars nefna nefna timbur, hurðar, hellur og heilu innréttingarnar - blöndunartæki, reiðhjól og ýmislegt fleira, sem fyrri eigendur hafa losað sig við á haugana.

„Hérna erum við búin að tína saman alls konar efni og búið til lítinn markað og svo erum við spennt að sjá hver viðbrögðin verða hjá væntanlegum viðskiptavinum,“ segir Guðmundur Tryggvi Ólafsson, rekstrarstjóri endurvinnslustöðva Sorpu. Hann segir söluna hafa farið ágætlega af stað strax á fyrsta degi.

„Fólk hefur náttúrlega í gegnum tíðina töluvert verið að spyrja okkur út í alls konar hluti, hvort það megi taka þetta eða taka hitt, þannig við höfum svo sem áttað okkur á því að það er svolítil eftirspurn. Nú viljum við bara formgera það í þessu því að okkur hugnast það illa þegar það er verið að skríða ofan í gámana“ segir Guðmundur.

Talið er að markaðurinn muni nýtast breiðum hópi viðskiptavina, einna helst einstaklingum og skólum, og ekki síður þeim sem stunda einhvers konar listsköpun. Verði verður stillt í hóf að sögn Guðmundar en ef vel gengur og hagnaður verður af sölunni verður hann látinn renna til góðgerðarmála. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×