Sport

Amanda Nunes kláraði Pennington í 5. lotu

Pétur Marinó Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Amanda Nunes varði bantamvigtartitil sinn í aðalbardaga kvöldsins á UFC 224 í nótt. Nunes kláraði bardagann í 5. lotu en þetta var hennar þriðja titilvörn í UFC.

UFC 224 fór fram í Ríó í Brasilíu. Amanda Nunes var ekki í miklum vandræðum með Raquel Pennington og kláraði hana með tæknilegu rothöggi í 5. lotu. Pennington vildi hætta eftir 4. lotuna en hornið hjá henni neitaði að hlusta á hana og sendu hana aftur út í 5. lotuna. Ákvörðunin hefur verið harðlega gagnrýnd enda var Pennington þegar búin að gefast upp áður en lotan hófst.

Með sigrinum hefur Nunes bætt met Rondu Rousey yfir flesta kláraða bardaga í bantamvigt kvenna í UFC eða sjö talsins. Nunes var gráti næst eftir sigurinn og sagði að þetta hefði verið erfiðasti bardagi hennar til þessa þar sem mikill vinskapur er á milli hennar og Pennington.

Í næstsíðasta bardaga kvöldsins mættust þeir Kelvin Gastelum og Ronaldo ‘Jacare’ Souza í millivigt. Bardaginn var hnífjafn og spennandi en Gastelum endaði á að sigra eftir klofna dómaraákvörðun. Báðir áttu sín augnablik í bardaganum en með sigrinum hefur Gastelum að öllum líkindum tryggt sér titilbardaga í millivigtinni.

Bardagakvöldið reyndist vera frábær skemmtun en 11 af 13 bardögum kvöldsins enduðu með rothöggi eða uppgjafartaki. Öll önnur úrslit má sjá á vef MMA Frétta hér.

MMA

Tengdar fréttir

Finnur Amanda Nunes gamla formið?

UFC 224 fer fram í kvöld í Ríó de Janeiró í Brasilíu. Í aðalbardaga kvöldsins mætast þær Amanda Nunes og Raquel Pennington.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×