Erlent

Ellefu látnir eftir sjálfsmorðsárásir í Indónesíu

Þórdís Valsdóttir skrifar
Sjálfsmorðsárásirnar voru framdar í þremur kirkjum í borginni Surabaya.
Sjálfsmorðsárásirnar voru framdar í þremur kirkjum í borginni Surabaya. Vísir/AFP
Ellefu eru látnir og 41 særðir eftir sprengjuárásir í borginni Surabaya í Indónesíu. Grunur leikur á að þrír árásarmenn hafi sprengt sig í loft upp í þremur kirkjum í borginni í morgun. Surabaya er næst stærsta borg Indónesíu og eru íbúar hennar tæplega 3,5 milljónir.

Mannskæðasta árásin var í kaþólsku kirkjunni Santa María þar sem fjórir létust. Í hinum tveimur kirkjunum þar sem sprengingarnar urðu létust tveir í hvorri kirkju. Fyrsta sprengjan sprakk klukkan hálf átta í morgun að staðartíma og hinar tvær nokkrum mínútum síðar.

Samkvæmt þarlendum yfirvöldum leikur grunur á að samtökin Jemaah Ansharut Daulah, sem eiga rætur sínar að rekja til íslamska ríkisins, hafi framið árásirnar.

Retno Marsudi, utanríkisráðherra Indónesíu, fordæmdi árásina á Twitter og vottaði aðstandendum hinna látnu samúð sína.

Árásin er sú mannskæðasta frá því árið 2005 þegar þrjár sjálfsmorðsárásir voru framdar á eyjunni Bali. Tuttugu létu lífið í árásinni.

Tæplega 90 prósent Indónesa eru múslimar en þó eru fjölmargir íbúar landsins kristnir, hindúar og búddistar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×