Skoðun

Alltaf má fá annað skip

Guðrún Ágústsdóttir og René Biasone skrifar

Við áttum ekki von á því að krafa okkar um að Elliðárdalurinn yrði verndaður og útivistarsvæði dalsins stækkað yrði að pólítísku bitbeini. Jórunn Pála Jónasdóttir skrifar svarpistil við grein okkar sem birtist hér á Vísi á föstudaginn. Ekki til þess að fagna því að við í Vinstri grænum viljum styrkja og stækka náttúruverndarsvæði í borginn og standa vörð um Elliðárdalinn, heldur til þess að fetta fingur út í að við höfum efasemdir um hugmyndir um nýja atvinnustarfsemi í dalnum.



Við teljum því rétt að halda nokkrum atriðum til haga í þessari umræðu.



Krafa Hollvinasamtaka Elliðárdalsins

Líkt og aðrir hollvinir Elliðárdalsins höfum við haft áhyggjur af framtíð hans um margra ára skeið. Guðrún tók þátt í að stofna Hollvinasamtök Elliðaárdalsins 2012 og var varaformaður samtakanna í nokkur ár. Tilgangur félagsins er „að standa vörð um Elliðaárdalinn, mynda sátt um ytri mörk hans sem og lífríki og mannvirki innan og á mörkum hans. Sáttin verði byggð á sjónarmiðum náttúruverndar, útivistar og menningar.“ Ein helsta krafa okkar var og er að afmarka dalinn, en afmörkun dalsins er forsenda friðunar.  Tengsl okkar við dalinn eru djúp. Guðrún hefur búið í áratugi í Rafstöðvarhverfinu og alið þar upp börn sín. Dalurinn er einstök perla, en laxveiðiá í miðri borg er einstakt á heimsvísu.



Við höfum verið á móti nýbyggingum í dalnum alla tíð, ekki síst stórbyggingum eins og nýrri byggingu fyrir rafveitustarfsemi sem byggð var seint á síðustu öld og þá var því lofað jafnframt að Toppstöðin yrði rifin í kjölfarið. Það var ekki gert og verður ekki gert. Svo datt fólki í hug að byggja yfir Fornbílaklúbbinn, sem var gert, en húsið breytti um hlutverk og varð líkamsræktarstöð, „Boot Camp“ og þurfti mikil bílastæði, en stóð svo tómt um hríð þar til Hitt húsið fékk hluta hússins.



Umfangsmikill atvinnurekstur á ekki erindi í dalinn

Þessar byggingar hafa rýrt gildi dalsins að pllar okkar mati og þegar við heyrðum um BioDome þá urðum við bæði áhyggjufull. Við fögnuðum því mjög að fá kynningu á hugmyndinni frá aðstandanda BioDome á aðalfundi Hollvinafélagsins í síðustu viku. Aðalfundi sem Guðrún stjórnaði eins og venjulega. Við hlustuðum bæði með athygli og að lokinni kynningunni urðu töluverðar umræður og ljóst að fundarmenn höfðu áhyggjur af því að þessi starfsemi við Stekkjarbakkann gæti rýrt gildi dalsins verulega.



Ein spurning úr sal var um það hvað yrði gert við byggingarnar ef viðskiptahugmyndin gengi ekki upp. Kæmi þá annars konar starfsemi í byggingarnar? Og hver þá? Engan heyrðum við mæla þessu bót. Formaður félagsins hafði í upphafi fundar sagt frá kynningu sem hann hafði fengið fyrir aðalfundinn og var síður en svo jákvæður í garð hugsanlegrar framkvæmdar.



Þessi fundur var auglýstur og opinn öllum og ítarleg kynning fulltrúa BioDome því síður en svo trúnaðarmál eins og Jórunn Pála Jónasdóttir frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins heldur fram. Þarna hefðu fjölmiðlar getað verið hefðu þeir haft áhuga.



Líf Magneudóttir samþykkti ásamt meirihlutanum að senda umsókn um lóð BioDomeAldin í umsagnarferli. Þar gefst fólki kostur á að koma með athugasemdir og þegar þær hafa verið yfirfarnar er tekin ákvörðun um lóðaúthlutun. Fyrr ekki.



Nýfundinn áhugi Sjálfstæðisflokksins á náttúruvernd

Nýfundinn áhugi Sjálfstæðisflokksins á Elliðárdalnum er vissulega fagnaðarefni. Á 25 ára ferli sem vara- og aðalborgarfulltrúi í Reykjavík man ég ekki eftir því að hafa  heyrt Sjálfstæðisflokkinn nefna friðun dalsins fyrr en nú tæpum mánuði fyrir kosningar. Svo kæra Jórunn. Vertu velkomin með um borð í Elliða skipið hans Ketilbjörns gamla, með okkur René, Hollvinafélaginu og fjölmörgum öðrum sem viljum berjast fyrir því að þessi einstaka perla í náttúru Íslands, sem við í Reykjavík berum ábyrgð á, verði friðuð. Því fleiri sem vilja leggjast á árarnar með okkur hollvinum dalsins því betra. Velkomin um borð.



Lifi Elliðaárdalurinn.



Guðrún Ágústsdóttir er félagi í Hollvinasamtökum Elliðárdalsins og skipar 7 sæti á framboðslista VG í borgarstjórnarkosningunum.



René Biasone er teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun og skipar 5 sæti á framboðslista VG í borgarstjórnarkosningunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×