Enski boltinn

Guardian: Swansea féll af því að Gylfi fór

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fór til Everton og þá féll Swansea.
Gylfi Þór Sigurðsson fór til Everton og þá féll Swansea. vísir/getty
Sjö ára tvöl velska liðsins Swansea í ensku úrvalsdeildinni lauk um síðustu helgi þegar að liðið tapaði fyrir Stoke á lokadegi tímabilsins og féll niður í B-deildina.

Liðið hefur verið á niðurleið undanfarin ár eftir að ná áttunda sæti 2014 en það hafnaði í tólfta sæti árið 2016 og svo fimmtánda sæti á síðustu leiktíð.

Það var meira og minna einn maður sem að hélt Swansea-liðinu uppi en það var íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson. Þeir sem efuðust um þá staðreynd sáu hvað gerðist á nýliðnu tímabili þegar að Gylfi var farinn í Everton.

Jóhann Berg Guðmundsson og félagar náðu mun betri árangri en spáð var.vísir/getty
Enska blaðið Guardian er einnig á því að brotthvarf Gylfa Þórs hafi orðið til þess að Swansea féll en það gerir upp spá sína í dag. Swansea var spáð 17. sæti og þar með áframhaldandi veru í efstu deild en það hafnaði í 18. sæti og er fallið.

„Mögulegar Swansea felast í því hvað liðið gerir við peningana sem að það fékk fyrir stærstu sölu í sögu félagsins,“ sagði í umsögn um Swansea fyrir tímabilið en Svanirnir fengu 45 milljónir punda fyrir Gylfa Þór. Kaupin voru langt frá því nógu góð en liðið skoraði aðeins 28 mörk, fékk á sig 56 og spilar í B-deildinni á næstu leiktíð.

„Brotthvarf Gylfa Sigurðssonar fór með möguleika Swansea á að halda sér uppi og stuðlaði að áframhaldandi hnignun liðsins. Swansea var alltaf að fara í botnbaráttu en sú barátta tapaðist að þessu sinni eftir tap á móti Stoke,“ segir í umsögn um Swansea nú í lok tímabilsins.

Gylfa Þór og félögum var spáð sjöunda sæti en þeir höfnuðu í áttunda. Aftur á móti gerðu Jóhann Berg Guðmundsson og félagar hans mun betur en búist var við. Burnley var spáð 18. sæti en endaði í sjönda sæti og spilar í Evrópu á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×