Skoðun

Af hverju sækja ekki fleiri karlmenn í iðjuþjálfunarfræðinámið?

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar
Ég er karlmaður og er nemi í iðjuþjálfunarfræði við Háskólann á Akureyri – Alþjóðlegt nám byggt á heilbrigðis- og félagsvísindum.

Ég heiti Gísli og var að klára mitt fyrsta ár í fullu námi í iðjuþjálfunarfræði við Háskólann á Akureyri á Heilbrigðisvísindasviði. Ég verð að segja að námið kom mér verulega á óvart því ég gerði mér ekki grein fyrir því hversu námið er faglegt, alþjóðlegt, vísindalegt og fjölbreytt og finnst ég vera knúinn til að skrifa um upplifun mína af náminu á mínu fyrsta ári sem nemandi.

Nám í iðjuþjálfunarfræði er nefnilega bæði byggt á heilbrigðisvísindum og félagsvísindum.

Ástæðan fyrir því er sú að iðjuþjálfar þurfa að búa yfir góðri þekkingu á þroskaferli mannsins á mismunandi æviskeiðum, uppbyggingu og starfsemi mannslíkamans, félagsfræði, sálfræði og mats- og mælifræði til þess að geta sinnt sínu starfi.

Iðjuþjálfun sem menntun og starf hefur því ákveðna sérstöðu bæði innan heilbrigðis- og félagsþjónustu í okkar samfélagi. Ég veit ekki um neitt annað nám sem veitir nemanda eins fjölbreytta og faglega þekkingu á eins breiðu sviði og iðjuþjálfunarfræði.

Á mínu fyrsta ári í iðjuþjálfunarfræði fékk ég það besta úr öllu sem kennt er í Háskólanámi.

Svo að fátt sé nefnt þá fékk ég innsýn í starfsemi iðjuþjálfunarfagsins, sögu iðjuþjálfunar á Íslandi og á heimsvísu, lærði um helstu áhrifaþætti heilsu og leiðir til að efla hana, hugmyndafræði heilsueflingar og samspil lífsstíls, erfða og umhverfis á heilsu mannsins frá vöggu til grafar. Ég lærði um byggingu og starfsemi mannslíkamans, þá eðlilega starfsemi allra líkamskerfanna, þar á meðal taugakerfis, innkirtla- og ónæmiskerfisins.

Einnig fékk ég innsýn inn í skerðingar á þessum kerfum, meðferðarúrræði, forvarnir gegn sjúkdómum, faglega kennslu í skyndihjálp og verklega kennslu í endurlífgun. Ég lærði um fræðilegar undirstöður og aðferðir við að leggja mat á færni og þátttöku einstaklinga í daglegu lífi og mismunandi leiðir til að afla upplýsinga í starfi. Ég lærði um ólíkar gerðir matstækja til að leggja mat á getu og færni fólks og einnig um þróun og stöðlun þessara tækja, gæði þeirra, áreiðanleika og réttmæti sem og siðfræðilega þætti við notkun þeirra.

Ég gerði mér grein fyrir því að heilsa er hápólitískt fyrirbæri og að umhverfið sjálft hefur gífurleg áhrif á heilsu og lífsgæði einstaklinga og samfélaga og gerði mér grein fyrir því hvernig samspil umhverfis, líkamlegra og hugræna þátta hafa áhrif á það sem við tökum okkur fyrir hendur í daglegu lífi.

Vegna þess hversu námið er fjölbreytt, faglegt og fræðilegt þá mun B.S gráðan sjálf opna allar dyr fyrir mig í samfélaginu þegar kemur að starfsvettvangi því í henni eru svo mikil gæði, svo mikill fjölbreytileiki þekkingar sem nýtist á öllum sviðum samfélagsins. Ég mun ekki bara geta klárað eins árs diplóma nám á meistarastigi að lokinni B.S gráðu og fengið starfsréttindi sem iðjuþjálfi heldur get ég einnig nýtt þessa menntun til að starfa hvar sem ég vil í samfélaginu á þann hátt sem ég sjálfur kýs. Að auki opnast dyr fyrir mig inn á vítt svið aukins meistaranáms ef ég hef áhuga fyrir því.

Þess vegna kom mér verulega á óvart að fá þær upplýsingar frá Háskólanum á Akureyri að frá upphafi náms í iðjuþjálfunarfræði hafa aðeins 7 karlmenn útskrifast úr fjögurra ára námi fyrir B.S gráðu en 248 konur.

Og að úr sér-skipulögðu námi í iðjuþjálfun í HA til B.S gráðu sem var skipulagt fyrir iðjuþjálfa sem höfðu lært erlendis og fengið diplómagráðu þar voru 44 konur en enginn karlmaður.

Ég hafði einnig samband við Iðjuþjálfunarfélag Íslands og komst að því að ég er eini karlmaðurinn sem er með nemendaaðild hjá félaginu en að auki eru 13 konur með nemendaaðild í dag.

Ég fékk einnig þær upplýsingar að það eru 7 starfandi karlmenn sem eru félagsmenn í Iðjuþjálfunarfélaginu sem kemur heim og saman við útskriftir karlmanna úr Háskólanum á Akureyri.

Í félaginu eru 287 manns sem eru með fulla aðild og af þeim eru 6 karlmenn.

Síðan eru 24 með svokallaða fagaðild og þar af er einn karlmaður, en fagaðild þýðir að sérfræðingur starfar undir öðrum samningum iðjuþjálfa eins og t.d. sem háskólakennari en heldur samt tengingunni við félagið með árgjaldi.

Af hverju sækja ekki fleiri karlmenn í iðjuþjálfunarfræðinámið?

Ég held að karlmenn hafi ekki fengið nægar upplýsingar um námið og hversu gífurlegir möguleikar til ýmissa starfa standa þeim til boða með B.S prófi en sú gráða opnar á möguleika til starfa innan menntastofnana, velferðarþjónustu, almenns vinnumarkaðs og félagasamtaka svo eitthvað sé nefnt.

Að auki veitir Diplómapróf á meistarastigi sem er eins árs nám, starfsréttindi sem iðjuþjálfi sem er veitt af embætti landlæknis en iðjuþjálfar starfa m.a. innan heilbrigðis- og félagskerfisins, á almennum vinnumarkaði, í félagasamtökum, skólakerfinu, endurhæfingu og á geðsviði svo fátt sé nefnt.

Einnig veitir alþjóðleg viðurkenning diplóma námsins möguleika á frekara námi og störfum erlendis.

Ég vil eindregið hvetja alla til að kynna sér námið í iðjuþjálfunarfræði við HA og ekki síst karlmenn.

Kannski verð ég áttundi karlmaðurinn til að útskrifast sem iðjuþjálfi á Íslandi?

Ef svo er þá vona ég að fleiri karlmenn fylgi á eftir.

Iðjuþjálfunarfræði er bæði fyrir karlmenn og konur og inniheldur allt sem nemandi getur óskað sér úr háskólanámi.

Umsóknarfrestur fyrir haustönn 2018 er til 5. Júní.

Ég læt fylgja með tengil á síðu námsins í iðjuþjálfunarfræði hjá Háskólanum á Akureyri.




Skoðun

Sjá meira


×