Erlent

Bandaríkin felldu tillögu um rannsókn á dauða Palestínumanna

Kjartan Kjartansson skrifar
Byrjað var að bera Palestínumenn sem voru skotnir til bana í mótmælum á Gasa til grafar í dag.
Byrjað var að bera Palestínumenn sem voru skotnir til bana í mótmælum á Gasa til grafar í dag. Vísir/AFP
Fulltrúi Bandaríkjastjórnar í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna felldi tillögu um sjálfstæða rannsókn á drápum ísraelskra hermanna á tugum Palestínumanna í tengslum við mótmæli vegna opnunar sendiráðs Bandaríkjanna í Jerúsalem í gær.

Kúvætar lögðu fram drög að yfirlýsingu þar sem lýst var reiði og sorg vegna dauða 58 Palestínumanna sem voru skotnir til bana við landamæragirðingu á Gasaströndinni í gær. Í henni var einnig kallað eftir „sjálfstæðri og gegnsærri“ rannsókn á blóðbaðinu og að aðildarríkin virtu ályktun öryggisráðsins um að þau kæmu ekki upp sendiskrifstofum í Jerúsalem sem bæði Ísraelar og Palestínumenn gera kall til.

Ísraelska dagblaðið Haaretz segir að fulltrúar Bandaríkjastjórnar hafi komið í veg fyrir að yfirlýsingin væri samþykkt og birt.

Standa með sjálfsvarnarrétti Ísraela

Ákvörðun Trump um að færa sendiráð Bandaríkjanna frá Tel Aviv til Jerúsalem var afar umdeild og lagðist allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna gegn því í desember. Hin fjórtán ríkin í öryggisráðinu kröfðust þess jafnframt að Trump félli frá ákvörðuninni. Trump-stjórnin hótaði ríkjum sem greiddu atkvæði gegn Bandaríkjunum vegna málsins afleiðingum.

Talsmaður Hvíta hússins kenndi Hamas-samtökunum um ofbeldið við landamærin í gær. Lýsti hann fullum stuðningi ríkisstjórn Donalds Trump forseta við „rétt Ísraela til að verja sig“.

Auk þeirra 58 Palestínumanna sem liggja í valnum eftir mótmælin eru 2.700 særðir að sögn palestínskra yfirvalda. Þau hafa kallað skothríð Ísraelshers „fjöldamorð“. Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, segir að herinn hafi aðeins brugðist við í sjálfsvörn.

Gærdagurinn var sá blóðugasti á Gasaströndinni í fjögur ár eða frá því í fimmtíu daga stríði á milli Ísraels og herskárra Palestínumanna árið 2014.


Tengdar fréttir

Bandaríkin munu ekki gleyma árás allsherjarþingsins

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ályktaði gegn ákvörðun Bandaríkjaforseta um sendiráðsflutninga til Jerúsalem. Bandaríkjamenn hóta því að skera á fjárstuðning og Ísraelar segja þingið lygasamkundu.

Spennustigið hátt í Jerúsalem

Búist er við áframhaldandi mótmælum í Jerúsalem í dag, daginn eftir að 55 Palestínumenn létu lífið í átökum við ísraelska hermenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×