Erlent

Sendifulltrúi Bandaríkjanna kennir Hamas um blóðbaðið

Kjartan Kjartansson skrifar
Haley sagði tvískinnung ríkja innan Sameinuðu þjóðanna gagnvart ofbeldi fyrir botni Miðjarðarhafs.
Haley sagði tvískinnung ríkja innan Sameinuðu þjóðanna gagnvart ofbeldi fyrir botni Miðjarðarhafs. Vísir/AFP
Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna við Sameinuðu þjóðirnar, hafnar því að flutningur bandaríska sendiráðsins í Ísrael til Jerúsalem hafi valdið blóðugum átökum á milli Ísraelshers og palestínskra mótmælenda í gær. Hún kennir Hamas-samtökunum alfarið um ofbeldið.

Að minnsta kosti sextíu Palestínumenn eru látnir eftir að ísraelskir hermenn skutu á mótmælendur við landamæragirðingu á Gasasvæðinu í gær. Mótmælin voru vegna opnunar bandaríska sendiráðsins í Jerúsalem. Bæði Ísraelar og Palestínumenn gera kall til borgarinnar.

Á fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í dag fullyrti Haley að tvískinnungur væri innan stofnunarinnar. Ísraelum væri kennt um ofbeldi sem Hamas-samtökin og Íranir ýttu undir, að því er segir í frétt Politico.

„Munum það að Hama-hryðjuverkasamtökin hafa hvatt til ofbeldis í áraraðir, löngu áður en Bandaríkin ákváðu að færa sendiráðið okkar,“ sagði Haley sem staðhæfði að leiðtogar Hamas væru ánægðir með atburði gærdagsins.

Hún benti á að mótmælendurnir hefðu meðal annars bundið bensínsprengjur við flugdreka og fullyrti að Hamas hefði hvatt þá til þess að sækja að landamæragirðingunni. Sagði Haley efast um að sum ríkin í öryggisráðinu hefðu sýnt eins mikla „stillingu“ við slík mótmæli á eigin landamærum.

Ísraelska dagblaðið Haaretz segir að Haley hafi gengið út af fundi öryggisráðsins þegar fulltrúi Palestínumanna ávarpaði það.

Fyrr í dag komu fulltrúar Bandaríkjanna í veg fyrir að öryggisráðið samþykkti yfirlýsingu þar sem ofbeldið á Gasaströndinni hefði verið harmað og sjálfstæðrar rannsóknar krafist.

Bandaríkjastjórn hefur verið gagnrýnd harðlega fyrir ákvörðunina um að færa sendiráð sitt frá Tel Aviv til Jerúsalem. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna lagðist gegn því í desember og hin fjórtán ríkin í öryggisráðinu kröfðust þess að Bandaríkin endurskoðuðu ákvörðun sína. Óttuðust margir að flutningur sendiráðsins kæmi til með að valda óróleika á svæðinu.


Tengdar fréttir

Spennustigið hátt í Jerúsalem

Búist er við áframhaldandi mótmælum í Jerúsalem í dag, daginn eftir að 55 Palestínumenn létu lífið í átökum við ísraelska hermenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×