Skoðun

Hvítir fílar alls staðar

Björn Berg Gunnarsson skrifar
Eru innviðaframkvæmdir sem krafist er vegna stórmóta í íþróttum betri en aðrar? Það hlýtur að vekja athygli að þegar gríðarhár kostnaður við Ólympíuleika og heimsmeistaramót í fótbolta er gagnrýndur séu svörin nær alltaf þau sömu. Að stóru leyti sé um að ræða fjárfestingu í samgöngukerfi og leikvöngum og skattgreiðendur þurfi ekki að hafa áhyggjur af slíku, enda borgi slíkt sig á endanum.

Ef svo er hljótum við að spyrja okkur hvers vegna það þurfi stórmót til að ráðist sé í svo arðbærar framkvæmdir. Eru hagfræðingar FIFA og Alþjóðlegu Ólympíunefndarinnar betri en aðrir eða er flugvöllur sem byggður er vegna íþróttamóts betri en aðrir flugvellir? Hvort er líklegra, að þær framkvæmdir sem nauðsynlegar eru til að uppfylla skilyrði alþjóðlegra íþróttasambanda séu arðbærari en gengur og gerist eða að gripið sé til þessa málflutnings til að réttlæta háan kostnað og ítrekaðar framúrkeyrslur?

Nýlega var þó látið reyna á nýja nálgun. Formaður skipulagsnefndar HM í Rússlandi sagði ljóst að þegar mótið verður flautað af verði engir svokallaðir hvítir fílar í landinu, en með því er átt við leikvanga sem engin þörf er á. Hann hélt áfram og sagði að ráðist hefði verið í allar þær framkvæmdir sem nauðsynlegar væru vegna mótsins, hvort sem Rússland hefði fengið að hýsa það eða ekki.

Ekki er vitað hvort honum hafi verið bent á að um 13.000 áhorfendur sæki leiki í rússnesku úrvalsdeildinni að meðaltali en leikvangarnir nýju geti tekið við 44.700 áhorfendum, þrátt fyrir að þrír þeirra verði minnkaðir að loknu móti. Þá sé ekki leikið nema á helmingi þeirra í úrvalsdeild.

Auðvitað verða hvítir fílar í Rússlandi að loknu móti, rétt eins og í Brasilíu, Suður-Afríku, Ástralíu, Grikklandi og fleiri löndum sem sitja í dag uppi með innviðauppbyggingu sem réttlætt var á sínum tíma með þeirri fullyrðingu að slíkt borgaði sig alltaf.

Höfundur er fræðslustjóri Íslandsbanka




Skoðun

Sjá meira


×