Viðskipti innlent

Kúkú Campers í formlegt söluferli

Hörður Ægisson og Kristinn Ingi Jónsson skrifa
Bílaleigan hefur verið eitt fyrirferðamesta ferðaþjónustufyrirtæki landsins síðustu ár.
Bílaleigan hefur verið eitt fyrirferðamesta ferðaþjónustufyrirtæki landsins síðustu ár. Kúkú Campers
Fimm ferðaþjónustufyrirtæki og eitt fasteignafélag, sem eru öll að hluta í eigu Steinars Lárs Steinarssonar, þar á meðal húsbílaleigan Kúkú Campers, hafa verið sett í formlegt söluferli. Félögin skiluðu rekstrarhagnaði fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta fyrir samanlagt um 600 milljónir króna á síðasta ári.

Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hefur umsjón með söluferlinu, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Steinarr Lár, sem á helmingshlut í Kúkú Campers á móti Lárusi Guðbjartssyni og er jafnframt hluthafi í hinum félögunum fimm, segir í samtali við Markaðinn að ekki hafi verið tekin endanleg ákvörðun um að selja fyrirtækin. 



Steinarr Lár Steinarsson.
Hann segir reksturinn hafa gengið vel og útlit sé fyrir áframhaldandi vöxt.

Umrædd félög eru, auk Kúkú Campers, ferðaþjónustufyrirtækin GCR, Camping Iceland, Go Campers og Nordic Holidays og fasteignafélagið Flatahraun 21.

Kúkú Campers hagnaðist um 154 milljónir árið 2016 og jókst hagnaðurinn um hátt í 60 prósent á milli ára. Um var að ræða besta rekstrarár félagsins frá stofnun árið 2012 en Kúkú Campers hefur notið mikilla vinsælda á meðal erlendra ferðamanna undanfarin ár.

Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2016 leigðu ferðamenn bíla hjá því fyrir tæpar 460 milljónir króna á árinu. Til samanburðar nam salan 285 milljónum króna árið 2015.

Lárus sagði í samtali við Fréttablaðið síðasta haust að vöxtinn mætti rekja til þess að bílaflotinn var tvöfaldaður á milli áranna 2015 og 2016. Nefndi hann jafnframt að íslenski markaðurinn væri mettur og að Kúkú Campers hefði hug á því að stækka enn við sig í Bandaríkjunum þar sem félagið hóf útrás í byrjun síðasta árs.


Tengdar fréttir

Methagnaður í fyrra hjá Kúkú Campers

Húsbílaleigan Kúkú Campers skilaði 154 milljóna króna hagnaði í fyrra og stækkaði mikið milli ár. Eigandi segir íslenska ferðaþjónustu í fjötrum vegna krónunnar í ár og fyrirtækið ætli að setja aukinn fókus á Ameríkuútrás þar sem tækifærin eru mikil.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×