Innlent

Hvítasunnuveðrið gæti sett ferðalög í uppnám

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fólk sem ætlar að vera á faraldsfæti um helgina gæti þurft að gera ráðstafanir.
Fólk sem ætlar að vera á faraldsfæti um helgina gæti þurft að gera ráðstafanir. VÍSIR/ANDRI MARINÓ
Veðurstofan gerir ráð fyrir „óvenjulega hvössum vind“ um hvítasunnuhelgina. Gangi spár eftir sé því ljóst að veður getur raskað ýmsum áætlunum sem Íslendingar kunna að hafa gert fyrir helgina, til dæmis varðandi útilegur eða fjallaferðir.

Það er þó útlit fyrir suðvestan kalda með vætu í dag, en þurrt og bjart að mestu norðaustan- og austanlands. Það getur hitinn orðið allt að 12-13 stigum.

Það tekur svo að hvessa á morgun af suðri og suðaustri, allhvass vindur síðdegis og talsverð rigning ásamt snörpum hviðum við fjöll.

Hins vegar verður hægari vindur og þurrt fram á kvöld á Norður- og Austurlandi og þar gæti hiti náð 15-16 stigum í hnjúkaþey á morgun.

Þegar kemur fram á föstudag er svo útlit fyrir svala suðvestanátt með skúrum eða slydduéljum, en þurrt á austurhelmingi landins. Föstudagurinn telst vera stund milli stríða, því á laugardag og sunnudag, hvítasunnudag, er gert ráð fyrir að hvöss suðlæg átt verði þrálát með talsverðri rigningu. Það getur haft fyrrnefndar afleiðingar fyrir hvers kyns áætlanir um þessa miklu ferðahelgi.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag:

Vaxandi suðaustanátt, 13-18 m/s síðdegis og talsverð rigning, en heldur hægari og þurrt fram á kvöld á Norður- og Austurlandi. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast norðaustantil á landinu. Snýst í suðvestan 8-13 vestanlands þegar líður á kvöldið með skúrum og kólnandi veðri. 

Á föstudag:

Suðvestan 5-13 m/s og dálitlir skúrir eða slydduél, en þurrt og bjart á austurhelmingi landins. Hiti 3 til 10 stig, hlýjast austanlands. 

Á laugardag:

Gengur í hvassa suðaustanátt með rigningu, talsverð úrkoma sunnantil á landinu. Hiti 5 til 10 stig. 

Á sunnudag (hvítasunnudagur):

Útlit fyrir hvassa suðvestanátt og rigningu með köflum, en þurrt norðaustanlands. Hiti 3 til 8 stig. 

Á mánudag (annar í hvítasunnu):

Útlit fyrir að lægi á landinu og stytti upp að mestu. Hiti 3 til 9 stig. 

Á þriðjudag:

Líklega suðaustanátt með rigningu, en þurrt á Norður- og Austurlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×