Erlent

Dómari neitar að vísa frá máli gegn fyrrverandi kosningastjóra Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Manafort vann meðal annars fyrir Viktor Janúkovitsj, fyrrverandi forseta Úkraínu, sem er bandamaður stjórnvalda í Kreml.
Manafort vann meðal annars fyrir Viktor Janúkovitsj, fyrrverandi forseta Úkraínu, sem er bandamaður stjórnvalda í Kreml. Vísir/AFP
Sérstakur rannsakandi bandaríska dómsmálaráðuneytisins hafði fulla heimild til að sækja Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóra Donalds Trump Bandaríkjaforseta, til saka. Þetta er mat alríkisdómara sem hafnaði kröfu lögmanna Manafort um að vísa ákærum gegnum honum frá í gær.

Rannsókn Roberts Muller, sérstaka rannsakandans, beinist að afskiptum Rússa af forsetakosningunum árið 2016 og hvort að framboð Trump hafi átt í samráði við þá. Saksóknararnir hafa einnig heimild til að rannsaka önnur mál sem koma upp við rannsóknina.

Lögmenn Manafort héldu því hins vegar fram að saksóknararnir hefðu gengið lengra en umboð þeirra frá dómsmálaráðuneytinu leyfði. Brotin sem Manafort væri ákærður fyrir tengdust samráði við Rússa á engan hátt.

Að sögn Reuters-fréttastofunnar hafnaði alríkisdómari í Washington-borg þeim rökum og sagði að dómsmálaráðuneytið hefði sérstaklega veitt leyfi til að rannsaka meint brot sem lýst er í ákærunni gegn Manafort. Því hafi saksóknararnir ekki farið út fyrir valdsvið sitt.

Þáði milljónir frá Úkraínu

Manafort er meðal annars ákærður fyrir peningaþvætti og að skrá sig ekki sem málafylgjumaður erlends ríkis. Hann vann meðal annars fyrir Viktor Janúkóvitsj, fyrrverandi forseta Úkraínu áður en hann tók við forstetaframboði Trump árið 2016. Í Virginíuríki er Manafort ákærður fyrir bankasvik og að skila röngum skattskýrslum.

Fyrrverandi kosningastjórinn hefur neitað sök. Manafort steig til hliðar sem kosningastjóri Trump í ágúst árið 2016 eftir að ásakanir komu fram um að hann hefði þegið milljónir dollara frá Janúkóvitsj.

Fram hafa komið upplýsingar um að Manafort hafi meðal annars skipulagt leynilega áróðursherferð til þess að bæta ímynd ríkisstjórn Janúkóvitsj og koma höggi á pólitíska andstæðinga, þar á meðal Hillary Clinton þegar hún var utanríkisráðherra Bandaríkjanna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×