Skoðun

Leysum húsnæðis- og skipulagsmálin

Ingvar Mar Jónsson skrifar

Reykjavík með forystu

Á 7. og 8. áratug síðustu aldar byggðist Breiðholtið upp af miklum myndarskap og þangað fluttu barnafjölskyldur í stórum stíl. Þaðan á ég ljúfar minningar úr barnæsku minni. Þar var mikill fjöldi barna sem lék sér saman, sundlaug og skíðabrekka í göngufæri og allskyns íþróttaiðkun í hverfinu.

Á 9. áratugnum hóf Reykjavíkurborg aftur uppbygginu nýs íbúahverfis í Grafarvogi. Ég var svo heppinn að fá að taka þátt í því ævintýri sem unglingur í minni fyrstu byggingarvinnu en þar var sagt: " Ingvar, það þurfa allir þak yfir höfuðið".
 

Kópavogur tók við forystuhlutverkinu

Frá 10. áratugnum hefur Kópavogur dregið vagninnn og íbúum þar hefur fjölgað hratt og þar sem íbúum fjölgar þar aukast tekjur sveitarfélaga. Á síðustu árum hafa Garðabær og Hafnarfjörður einnig ráðist í mikla uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. 

Hvar stendur Reykjavík í þessum samanburði? Það er augljóst að Reykjavíkurborg hefur misst af mikilvægum tækifærum þar sem hún hefur ekki fylgt eftir íbúaþróun á höfuðborgarsvæðinu. Borgin hefur auk þess orðið fyrir miklu tekjutapi vegna þessa. Það sæmir henni ekki sem höfuðborg að hafa misst af lestinni. Höfuðborgin þarf að taka hlutverki sínu alvarlega og standa undir nafni. 
 

Reykjavík tekur forystu á ný

Til að leysa húsnæðisvandann þarf Reykjavík að reisa nýtt íbúahverfi. Það er ekki nóg að þétta byggðina eins og gert hefur verið. Skipulagsmálin þarf að taka fastari tökum. Í því felst að borgaryfirvöld hafi skýrari framtíðarsýn og fylgi henni eftir. 

Mín sýn er glæsilegt hverfi með góðar samgöngutengingar þar sem allir yrðu stoltir af að búa. Möguleikarnir eru margir t.d. Keldnaholt eða Geldinganes með tengingu um Sundabraut. Ennig er brýnt er halda áfram uppbygingu í Úlfarsárdal. Það er ekki eftir neinu að bíða. Framundan eru borgarstjórnarkosningar þar sem kosið verður um fólk til að gegna forystu í skipulagsmálum.

Ég skora á kjósendur að hugsa um þessi mikilvægu mál. Brýn þörf er á breytingum. Skipulagsmálin verða að vera í lagi og uppbygging við hæfi. Lærum af biturri og erfiðri reynslu. Horfum fram á veginn og gerum Reykjavík að leiðandi afli í sínu hlutverki sem höfuðborg. Reykjavík er svo miklu meira en 101 Reykjavík. 

Getum við ekki verið sammála um það?

Höfundur er oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík í sveitarstjórnarkosningunum 26. maí, 2018.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.