Innlent

Guðlaugur Þór tók upp málefni Palestínumanna á fundi í Washington

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Fundur ráðherranna fór fram í Washington í gær
Fundur ráðherranna fór fram í Washington í gær Utanríkisráðuneytið
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segir greinilegt að Bandaríkjamenn og Evrópubúar hafi aukinn áhuga á málefnum Norðurslóða en hingað til hafi áhuginn aðallega komið frá Rússum og Kínverjum. Guðlaugur þingaði í gær með James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna í Washington.

Utanríkisráðherra er í Washington þar sem hann hefur meðal annars setið fundi með hugveitum á borð við Heritage Foundation og Center for Strategic & International Studies. Guðlaugur Þór ræddi einnig við James Mattis varnarmálaráðherra.

„Þessi fundur með Mattis, sem var ákveðinn fyrir nokkru síðan, var bæði mjög góður og gagnlegur,“ segir Guðlaugur.

„Við vorum þarna að fara yfir sameiginleg mál þjóðanna. Við þekkjum auðvitað að það hefur verið mikið samstarf á sviði öryggis- og varnarmála. Bæði tvíhliða á milli þjóðanna og sömuleiðis innan Atlantshafsbandalagsins. Einnig fórum við yfir ýmis önnur mál sem eru hátt á baugi í alþjóðamálum núna.“

Þar má meðal annars nefna stöðuna fyrir botni Miðjarðarhafs eftir blóðbaðið á Gaza ströndinni í fyrradag.

„Jú, ég tók það upp og fór yfir áhyggjur okkar af þeim málum. Þá er ég sérstaklega að vísa til þess sem er að gerast núna á Gaza ströndinni. Við höfðum af því áhyggjur að það myndi skapa óróa að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels, eins og menn þekkja. Þeir þekkja auðvitað þá afstöðu okkar mjög vel.“

Málefni norðurslóða bar einnig á góma.

„Það er aukinn áhugi á norðurslóðum meðal Bandaríkjamanna. Fram til þessa hafa Rússar og Kínverjar verið þær þjóðir sem hafa mestan áhuga haft á þeim málum og verið einbeittastir í þeim. Núna eru bæði Bandaríkjamenn, Kanadamenn og Evrópuþjóðirnar að taka við sér.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×