Viðskipti innlent

Héraðsdómur hækkaði sekt Byko um 335 milljónir króna

Birgir Olgeirsson skrifar
Samkeppniseftirlitið hafði sektað Byko um 650 milljónir króna. Áfrýjunarnefnd hafði lækkað sektina í 65 milljónir króna en Héraðsdómur Reykjavíkur hækkaði hana í dag í 400 milljónir króna.
Samkeppniseftirlitið hafði sektað Byko um 650 milljónir króna. Áfrýjunarnefnd hafði lækkað sektina í 65 milljónir króna en Héraðsdómur Reykjavíkur hækkaði hana í dag í 400 milljónir króna. Vísir
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur staðfest að Byko hafi framið alvarleg brot á samkeppnislögum og hækkaði álagða sekt í 400 milljónir króna. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafði talið 65 milljónir króna sekt hæfilega.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu en þar segir að aðdraganda málsins megi rekja til maí mánaðar árið 2015 þegar Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að Byko hefði brotið gegn samkeppnislögum og EES-samningnum með umfangsmiklu ólögmætu samráði við gömlu Húsasmiðjuna.

Segir Samkeppniseftirlitið að um hafi verið að ræða verðsamráð á mikilvægum byggingarvörum. Málið hófst þegar Múrbúðin snéri sér til Samkeppniseftirlitsins og gerði grein fyrir tilraunum Byko og gömlu Húsasmiðjunnar til að fá Múrbúðina til að taka þátt í hinu ólögmæta samráði. Taldi Samkeppniseftirlitið að um alvarleg brot væri að ræða og lagði 650 milljóna króna sekt á Norvik, móðurfélag Byko.

Norvik og Byko kærðu ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Í október 2015 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að Byko hefði tekið þátt í ólögmætu verðsamráði og brotið gegn samkeppnislögum. Hins vegar féllst nefndin ekki á að ákvæði EES-samningsins hefðu verið brotin. Einnig taldi nefndin að brot Byko hafi ekki verið jafn alvarleg og Samkeppniseftirlitið lagði til grundvallar. Taldi nefndin því hæfilegt að lækka sekt Byko úr 650 milljónum króna í 65 milljónir króna.

Samkvæmt samkeppnislögum er Samkeppniseftirlitinu falið að meta hvort þeir almannahagsmunir, sem felast í virkri samkeppni, kalli á að úrskurðir áfrýjunarnefndar samkeppnismála séu bornir undir dómstóla. Jafnframt er Samkeppniseftirlitinu falið að beita samkeppnisreglum EES-samningsins. Samkeppniseftirlitið höfðaði því mál fyrir héraðsdómi þar sem eftirlitið byggði á því að áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefði túlkað EES-samninginn með röngum hætti. Einnig hefði nefndin ekki lagt rétt mat á alvarleika brota Byko og sekt nefndarinnar gæti ekki tryggt fullnægjandi varnaðaráhrif. Slík áhrif eru mikilvæg til að stuðla að því að fyrirtæki raski ekki samkeppni, neytendum til tjóns. Samkeppniseftirlitið krafðist þess að sekt Byko yrði hækkuð.

Með dómi sínum í dag féllst Héraðsdómur Reykjavíkur á að brot Byko hefðu verið alvarleg og hækkaði sekt félagsins í 400 milljónir króna. Að mati héraðsdóms geti það ekki „verið nokkrum vafa undirorpið að um var að ræða samráð í skilningi samkeppnisréttar.“ Með háttsemi sinni hafi félögin haldið uppi vöruverði og bætt framlegð sína á kostnað viðskiptavina. Í dómnum segir að sekt áfrýjunarnefndar hafi verið „of lág. Hér hefur helst þýðingu að um alvarlegt brot var að ræða á markaði milli markaðsráðandi fyrirtækja sem framin voru í þeim tilgangi að styrkja stöðu þeirra á kostnað neytenda. Var með því brotið gegn mikilvægum hagsmunum þorra almennings.“ Einnig féllst dómurinn á það að ákvæði EES-samningsins hefðu verið brotin.


Tengdar fréttir

Brot Byko alvarleg og ollu almenningi öllum tjóni

Samkeppniseftirlitið sektað Byko í gær um 650 milljónir króna vegna ólöglegs samráðs. Stjórnendur Byko saka Samkeppniseftirlitið um áróður og segja ákvörðunina í andstöðu við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×