Skoðun

Innflytjendur og heilbrigðisþjónustan á Íslandi, hugmynd að úrbótum

Rut Sigurjónsdóttir skrifar
Nýlegar rannsóknir benda til þess að ákveðnir samfélagshópar líkt og innflytjendur búi við skert aðgengi að heilbrigðisþjónustu, á heimsvísu. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um málefni innflytjenda og útlendinga frá árinu 2015, kemur fram að tillögur til úrbóta í aðlögunarmálum innflytjenda á Íslandi, hafi fyrst komið fram árið 2005. Í þeirri umfjöllun kom meðal annars fram að brýn þörf væri á að tryggja innflytjendum jafnan aðgang að mörgum sviðum innan samfélagsins og var heilbrigðisþjónustan ofarlega á þeim lista. Þrettán árum síðar má leiða líkum að því að þörfin fyrir bætt aðgengi innflytjenda að íslenskri heilbrigðisþjónustu hafi aukist enn frekar. Sérstaklega með þá staðreynd í huga að innflytjendum hefur fjölgað talsvert mikið síðastliðin tíu ár, nýjustu tölur frá Hagstofu Íslands benda til þess, að þeir séu einn af hverjum tíu íbúum á Íslandi í dag.

Til að skoða aðstæður innflytjenda varðandi aðgengi að upplýsingum í heilbrigðisþjónustu, ákvað hjúkrunarfræðingur að gera óformlega könnun á heimasíðum helstu heilbrigðisstofnana á Íslandi. Skoðaðar voru heimasíður Landspítalans háskólasjúkrahúss, Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Sjúkrahússins á Akureyri og einnig Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, með það markmið í huga að finna efni sem tengdist innflytjendum á einhvern hátt. Þegar heimasíðurnar voru skoðaðar með tilliti til efnis um innflytjendur, var orðið „innflytjendur“ slegið inn í leitarvél viðkomandi stofnunar. Á heimasíðu Landspítalans má sjá að að boðið er upp á túlkaþjónustu fyrir innflytjendur og þá er að finna einn hlekk á bækling um lungnakrabbamein á pólsku. Á heimasíðu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands finnst ekkert efni um innflytjendur fyrir utan hlekk á heimasíðu Fjölmenningasetursins. Á heimasíðu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er einnig lítið að finna um innflytjendur, fyrir utan auglýsingar um fæðingarfræðslunámskeið á ensku og pólsku. Á heimasíðu Sjúkrahússins á Akureyri finnst ekkert um innflytjendur. Allar heimasíðurnar bjóða upp á möguleikann á að setja efni síðunnar yfir á ensku, fyrir utan íslensku. Þá býður Landspítalinn einnig upp á færeysku og Heilbrigðisstofnun Suðurlands býður upp á sænsku. Helstu niðurstöður leitarinnar benda til þess að, lítið efni sé að finna um og fyrir innflytjendur.

Það gefur augaleið að helstu heilbrigðisstofnannir landsins geta gert mikið betur hvað varðar aðgengi upplýsinga á heimasíðum þeirra fyrir innflytjendur. Þörf er á að þýða heimasíðurnar yfir á fleiri tungumál til þess að tryggja innflytjendum betra aðgengi að upplýsingum heilbrigðisstofnana. Í nýlegum gögnum frá Hagstofu Íslands kemur fram að Pólverjar, Litháar og Filippseyingar, séu meðal fjölmennustu innflytjenda hér á landi. Hér er lagt til að það væri ef til vill gagnlegt að byrja á að þýða heimasíður stofnana yfir á þessi tungumál, til að tryggja enn betra aðgengi að heilbrigðisþjónustunni á Íslandi fyrir innflytjendur. Það er augljóst að tungumálakunnátta getur verið hamlandi þáttur fyrir innflytjendur. Með þessu móti gætu innflytjendur leitað betur að upplýsingum hvað varðar íslenska heilbrigðisþjónustu og þannig verið betur upplýstir hvaða þjónusta stendur þeim til boða hér á landi og hvert þeir eigi að leita þegar veikindi steðja að.

Höfundur greinarinnar er hjúkrunarfræðingur á Landspítala háskólasjúkrahúsi.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×