Handbolti

Draumur að spila í Meistaradeildinni

Hjörvar Ólafsson skrifar
Bjarki Már í leik með Füchse.
Bjarki Már í leik með Füchse. vísir/getty
Það er skammt stórra högga á milli hjá Bjarka Má Elíssyni og félögum hans hjá Füchse Berlin næstu daga. Liðið á leik gegn Hannover-Burgdorf í þýsku efstu deildinni í handbolta karla í kvöld, en liðið er í harðri baráttu við Rhein-Neckar Löwen og Flensburg um þýska meistaratitilinn. Þá anda Magdeburg, Kiel og Hannover-Burgdorf ofan í hálsmálið á Füchse Berlin í baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Á laugardaginn kemur mætir Füchse Berlin svo Göppingen í undan­úrslitum EHF-keppninnar, en Bjarki Már og samherjar hans eiga harma að hefna frá síðasta ári þar sem Göppingen lagði Füchse Berlin að velli í úrslitaleik keppninnar.

Bjarki Már segist hóflega bjartsýnn á það að lið hans verði þýskur meistari, en stefnan sé sett á að klára síðustu fjóra leiki deildarkeppninnar með sóma og sjá hverju það skilar.

„Bæði Rhein-Neckar Löwen og Flensburg eiga frekar þægilega leikjadagskrá eftir og ég býst nú ekki við því að þau misstígi sig á lokasprettinum,“ sagði Bjarki Már í samtali við Fréttablaðið.

„Ég hugsa að Rhein-Neckar Löwen klári þetta og verði meistarar, en við ætlum að sjálfsögðu að setja pressu á þau með því að hafa betur í þeim leikjum sem eftir eru. Ef við vinnum Hannover-Burgdorf þá erum við í góðri stöðu hvað varðar Meistaradeildarsæti. Mig hefur dreymt um það síðan ég var lítill strákur að leika í þeirri keppni og það væri gaman ef sá draumur yrði að veruleika,“ sagði Bjarki Már.

„Það er hins vegar ekki klárt hvort Þýskaland fær tvö eða þrjú sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð, þar sem forráðamenn þýsku deildar­keppninnar og Meistaradeildarinnar eiga í deilum þessa stundina um leikdaga og sjónvarpsréttindi. Við getum hins vegar lítið gert í því og það eina sem við getum gert er að hafna eins ofarlega og mögulegt er.“

Bjarki Már kveðst spenntur fyrir úrslitahelgi EHF-bikarsins.

„Það hefur verið þétt dagskrá undanfarið og það heldur áfram. Strax eftir leikinn gegn Hannover-Burgdorf þá höldum við til Magde­burg og freistum þess að sækja EHF-bikarinn,“ sagði Bjarki Már.

„Við mætum Göppingen í undanúrslitum sem hafði af okkur þennan titil í fyrra með því að vinna okkur í úrslitaleik. Við ætlum klárlega að fara alla leið að þessu sinni. Ef við myndum vinna EHF-bikarinn og tryggja okkur sæti í Meistaradeild Evrópu getum við mjög vel við unað að mínu mati. Það væri hins vegar enn betra ef við næðum að landa þeim stóra, það er þýska meistaratitlinum,“ sagði Bjarki Már.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×