Erlent

Lét lífið eftir rafrettusprengingu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Tallmadge D'Elia er talinn vera fyrsti maðurinn sem lætur lífið í rafrettusprengingu.
Tallmadge D'Elia er talinn vera fyrsti maðurinn sem lætur lífið í rafrettusprengingu. BBC

Bandarískur karlmaður lést eftir að rafsígaretta sem hann reykti sprakk framan í hann. Í skýrslu réttarmeinafræðinga sem vitnað er til á vef breska ríkisútvarpsins kemur meðal annars fram að við sprenginguna hafi brot úr sígarettunni festst í höfuðkúpu mannsins. Þá er hann jafnframt sagður hafa hlotið brunasár á 80 prósentum líkamans.

Maðurinn, hinn 38 ára gamli Tallmadge D'Elia, fannst látinn á heimili sínu þann 5. maí síðastliðinn. Slökkviliðsmenn höfðu verið sendir á vettvang eftir að tilkynning barst um eld sem kviknaði hafði í svefnherbergi mannsins.

Talið er að D'Elia sé fyrsti reykingamaðurinn vestanhafs sem lætur lífið eftir rafrettusprengingu. Rafrettan var framleidd af fyrirtækinu Smok-E Mountain en óljóst er á þessari stundu hvort að fyrirtækið kunni að vera skaðabótaskylt vegna málsins, sem rannsakað er sem slys af þarlendum lögregluyfirvöldum.

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem rafrettur springa í höndum reykingamanna. Frá árinu 2009 til 2016 er talið að um 195 rafrettur hafi sprungið í Bandaríkjunum, 133 reykingamenn eru sagðir hafa slasast vegna þessa og þar af 38 alvarlega.

Til að mynda sprakk rafretta framan í mann í Colorado árið 2015. Hann er sagður hafa hálsbrotnað og tennur mannsins eiga að hafa splundrast.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.