Erlent

Bandaríkjamenn bíða með barneignir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Bandaríkjamönnum mun þó ekki fækka á næstunni.
Bandaríkjamönnum mun þó ekki fækka á næstunni. Vísir/Getty

Fæðingartíðni í Bandaríkjunum hefur ekki verið lægri í 30 ár. Telja vísindamenn það til marks um að Bandaríkjamenn séu farnir að bíða lengur með barneignir en þekkst hefur til þessa

Rúmlega 3,85 milljón börn fæddust í Bandaríkjunum í fyrra en færri börn hafa ekki fæðst vestanhafs á einu ári síðan árið 1987. Stærsta ástæðan er rakin til færri barneigna meðal unglinga og kvenna á þrítugsaldri. Hins vegar fjölgaði barneignum kvenna á aldrinum 40 til 44 ára. Fjölgunin var þó ekki nógu mikil til að vega upp á móti fækkuninni í fyrrnefndu aldurshópunum.

Það var þó ekki aðeins fæðingartíðnin, hversu mörg börn fæðast fyrir hverja þúsund íbúa, sem var lág í Bandaríkjunum í fyrra. Frjósemisstuðull bandarískra kvenna, mælikvarðinn á það hvað þær munu eignast mörg börn að meðaltali á lífsleiðinni, var 1.76 á síðasta ári. Hann hefur ekki verið jafn lágur síðan árið 1978.

Lægri fæðingartíðni er, á vef breska ríkisútvarpsins, rakin til aukinnar velmegunar vestanhafs. Þrátt fyrir það telja vísindamenn litlar líkur á því að Bandaríkjamönnum muni fækka á næstu áratugum eða að aldurssamsetning þjóðarinnar kúvendist.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.