Erlent

„Þetta er ekki fólk, þetta eru dýr“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, á fundinum í gær.
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, á fundinum í gær. vísir/ap
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, sagði á fundi í Hvíta húsinu í gær að ólöglegir innflytjendur í landinu væru sumir hverjir dýr en ekki fólk. Ekki var ljóst á fundinum hvort að forsetinn væri að vísa sérstaklega til meðlima í glæpagenginu MS-13 eða í víðara samhengi til innflytjenda sem hefur verið vísað úr landi.

Trump lét ummælin falla á fundi með leiðtogum Kailforníuríkis en til umræðu voru lög í Kaliforníu sem takmarka að miklu leyti öll samskipti á milli svæðislögreglu og landamæravarða ríkisins. Trump hefur stefnt ríkinu vegna lagasetningarinnar og vill fá henni hnekkt.

Á fundinum sagði Trump að Bandaríkin gætu gert miklu betur í því að halda óæskilegu fólk i frá landinu, þar á meðal meðlimum alþjóðlegra glæpagengja á borð við MS-13.

„Það er fólk sem er að koma inn í landið, eða að reyna að komast inn í landið, og við erum að stöðva marga en við erum að senda fólk burt. Þú myndir ekki trúa hversu vont þetta fólk er. Þetta er ekki fólk, þetta eru dýr. [...] Út af veikri löggjöf koma þau inn fljótt, við tökum þau, við sleppum þeim, við tökum þau aftur, við vísum þeim úr landi. Þetta er brjálæði,“ sagði forsetinn á fundinum.

Trump hefur áður notað orðið „dýr“ þegar hann er að vísa til meðlima MS-13. Það gerði hann á fundi með lögregluyfirvöldum í Long Island í júlí í fyrra.

Að því er fram kemur á vefnum Vox eru Trump og stjórn hans þó ekki að einbeita sér að því að vísa glæpamönnum úr landi. Frá því að Trump tók við völdum í byrjun árs 2017 og þar til árslok 2017 var 45.436 innflytjendum sem ekki voru á sakaskrá vísað úr landi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×