Formúla 1

Hörmungar Grosjean halda áfram

Bragi Þórðarson skrifar
Bíll Grosjean var fjarlægður af brautinni á Spáni snemma leiks um helgina
Bíll Grosjean var fjarlægður af brautinni á Spáni snemma leiks um helgina vísir/getty
Frakkinn Romain Grosjean hefur átt vægast sagt slæma byrjun á Formúlu 1 tímabilinu. Hann hefur aðeins klárað tvær af þeim fimm keppnum sem lokið er, og í bæði skiptin hefur hann verið langt á eftir liðsfélaga sínum.

Besti árangur Frakkans til þessa er 13. sætið í Barein kappakstrinum. Það verður að teljast lélegt þar sem liðsfélagi hans, Kevin Magnussen, varð fimmti í eyðimörkinni og er nú þegar kominn með 19 stig í keppni ökuþóra.

Í spænska kappakstrinum um helgina varð Grosjean frá að hverfa strax í þriðju beygju eftir að hafa misst stjórn á Haas-bíl sínum. Ekki nóg með það, heldur keyrði hann tvo aðra ökumenn út með því að hringspólast á miðri brautinni.

Alþjóða akstursíþróttasambandið, FIA, hefur því gefið Grosjean þriggja sæta refsingu á ráspól í næstu keppni sem fer fram í Mónakó 27. Maí.

Aðrir ökumenn í Formúlunni eru hreint ekki sáttir við akstursstíl Frakkans, og telja hann vera stórhættulegan.

„Hann ætti að fara í bann fyrir þetta,“ sagði Nico Hulkenberg eftir spænska kappaksturinn, en Nico er einn þeirra sem Romain klessti á.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem akstursstíll Grosjean fær harða gagnrýni. Mark Webber sagði árið 2012 að ræsa ætti Romain sér, svo hinir gætu keppt sín á milli og ekki þurft að hafa áhyggjur af Frakkanum.

Það er því alveg ljóst að sæti Grosjean hjá Haas gæti verið í hættu, sérstaklega þar sem Magnussen hefur byrjað tímabilið mjög vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×