Umfjöllun og viðtöl: Fylkir - ÍBV 2-1 │Fylkir í 3. sætið

Ívar Kristinn Jasonarson skrifar
Fylkir náði í jafntefli gegn Íslandsmeisturunum í síðustu umferð
Fylkir náði í jafntefli gegn Íslandsmeisturunum í síðustu umferð Vísir/Bára
Fylkismenn unnu góðan sigur á ÍBV í hlýjunni í Egilshöll í dag, 2-1. Heimamenn komust í 2-0 með mörkum frá Jonathan Glenn og Hákoni Inga Jónssyni en Sigurður Arnar Magnússon klóraði í bakkann fyrir gestina í uppbótartíma. Leikurinn var liður í 4. umferð Pepsi-deildar karla og eftir leikinn skutust Fylkismenn upp í þriðja sæti deildarinnar með sjö stig á meðan Eyjamenn sitja enn á botninum með aðeins 1 stig.

Heimamenn byrðjuðu leikinn af krafti og pressuðu Eyjamenn stíft. Þeir uppskáru mark strax á fjórðu mínútu eftir hrikaleg mistök Derby Carilloberduo í marki Eyjamanna. Hann hljóp út úr teignum og ætlaði að hreinsa boltann en skaut honum beint í Jonathann Glenn. Boltinn datt fyrir Ragnar Braga Sveinsson sem renndi honum á Glenn og eftirleikurinn var auðveldur. Glenn skoraði þarna gegn sínum gömlu liðsfélögum en hann lék með Eyjaliðinu á árunum 2014-2015.

Fylkismenn héldu áfram að pressa Eyjamenn og uppskáru nokkrar góðar skyndisóknir en náðu ekki að skapa sér nógu góð marktækifæri. Þegar leið á hálfleikinn komust Eyjamenn betur og betur inn í leikinn án þess þó að skapa mikla hættu. Mesta hættan skapaðist þegar Shahab Tabar slapp í gegnum Fylkisvörnina en féll niður eftir að Ari Leifsson virtist ýta í bakið á honum. Eyjamenn vildu fá dæmda aukaspyrnu og rautt spjald á Ara en Helgi Mikael, dómari leiksins, var því ekki sammála.

Jafnræði var með liðunum í upphafi síðari hálfleiks. Fyrstu mínútur hálfleiksins einkenndust af mikilli baráttu en liðin sköpuðu sér fá marktækifæri. Þegar líða tók á hálfleikinn jókst sóknarþungi Eyjamanna mikið og þeir sköpuðu sér nokkur góð færi en tókst ekki að jafna leikinn. Næst því komst Færeygingurinn í liði Eyjamanna, Kaj Leó í Bartalstovu, þegar hann skaut boltanum í stöngina úr góðu færi um miðja seinni hálfleikinn. Eftir þetta héldu Eyjamenn sóknarþunganum áfram en náðu ekki að nýta þau færi sem sköpuðust.

Það var því þvert gegn gangi leiksins þegar varamaðurinn Hákon Ingi Jónssson tvöfaldaði forskot heimamanna í lok venjulegs leiktíma. Hann sneri vel á varnarmann Eyjamanna og renndi boltanum í fjærhornið.

Sigurður Arnar Magnússon klóraði í bakkann fyrir gestina með skoti af stuttu færi í uppbótartíma. Lengra komust Eyjamenn ekki og þar við sat.

Af hverju vann Fylkir?

Fylkismenn komu af mun meiri krafti inn í leikinn og komust yfir í byrjun leiks eftir góða pressu á Derby í marki gestanna. Eyjamenn unnu sig hægt og rólega inn í leikinn án þess þó að skapa mikið af marktækifærum. Eyjamenn voru mun sterkari í síðari hálfleik og voru líklegri til að jafna leikinn, þeim gekk hins vegar illa að nýta þau færi sem þeir sköpuðu. Vörn heimamanna stóðst álagið og þeir náðu að sigla þremur stigum í hús.

Hverjir stóðu upp úr?

Það stóð enginn einn upp úr í leiknum. Ragnar Bragi Sveinsson og Jonathan Glenn voru skænuhættir fram á við hjá Fylkismönnum og Ásgeir Börkur Ásgeirsson og Emil Ásmunsdsson sterkir á miðjunni.

Hjá gestunum átti Kaj Leó góða spretti og Guy Gnabouyou kom með frískleika inn í sóknarleik þeirra þegar hann kom inn á snemma í síðari hálfleik.

Hvað gekk illa?

Eyjamenn áttu voru ekki góðir í byrjun leiks, áttu erfitt að halda boltanum innan liðsins og misstu hann oft á köflum á hættulegum stöðum. Gestirnir áttu í erfiðleikum með að finna marknetið í síðari hálfleik, þeir náðu að skapa nokkur góð marktækifæri sem þeir nýttu ekki. Derby virkaði mjög óöruggur í marki gestanna og það kostaði mark í byrjun leiks.

Hvað gerist næst?

Í fimmtu umferð deildarinnar tekur ÍBV á móti FH í Eyjum. Þeir þurfa nauðsynlega að fara að safna stigum en það verður erfitt á móti sterku liði FH.

Fylkir mætir í Garðabæinn og leikur gegn Stjörnunni í áhugaverðum leik, en liðin mættust í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins fyrr í mánuðinum þar sem Stjarnan hafði betur.

Helgi: Geggjað að klára þennan leik
Helgi Sigurðsson.Bára
„Við vissum að þetta yrði mjög erfiður leikur. Við höfum spilað mikið af leikjum á skömmum tíma sem hefur kostað mikla krafta af strákunum. Þeir sýndu frábæran vilja og það er geggjað fyrir okkur að klára þennan leik,“ sagði Helgi Sigurðsson, þjálfari Fylkis, sáttur með sigurinn í kvöld.

Helgi var ánægður með spilamennsku sinna manna fyrsta hálftímann en þá komust Eyjamenn betur inn í leikinn. „Við duttum aðeins niður í kæruleysi í lok fyrri hálfleiks. Við höfum oft spilað betur en í dag. En þegar maður er ekki að spila sinn besta leik er gott að menn sýni baráttu og skynsemi og klára leikinn. Í heildina áttum við þetta skilið.“

Mikil barátta var í Fylkisliðinu í dag og var Helgi sáttur með það. „Þetta var góður liðssigur Við vinnum og töpum saman og erum allir að leggja okkur fram vitandi það að allir leikir fyrir okkur eru úrslitaleikir.

Fylkismenn hafa byrjað mótið af krafti og eru með sjö stig eftir fyrstu fjórar umferðirnar, framar vonum myndu margir segja. „Ég er gífurlega ánægður með byrjunina á þessu móti og við njótum þess þegar vel gengur. En við þurfum að koma okkur fljótt niður á jörðina því það bíða okkur margir erfið leikir,“ sagði Hlegi bjartsýnn á framhaldið.

Kristján: Höldum áfram þótt þetta sé pirrandi
Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV.vísir/eyþór
„Skelfileg byrjun fellur okkur í dag. Ég veit ekki hvað menn voru að hugsa. Svo komum við til baka og gerðum það sem við ætluðum að gera. Við áttum skilið að fá eitthvað út úr leiknum,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Eyjamanna, inntur eftir sínum fyrstu viðbrögðum eftir leikinn í kvöld.

„Varnarleikurinn var stórkskrýtinn í upphafi leiks, við töluðum ekki saman og hlupum á hvorn annan. Þegar við vorum komnir undir fórum við betur í gang og þá sérstaklega í seinni hálfleik. En það þurfti að klára þessi færi. Við fengum dauðafæri og það kostaði okkur mikið í kvöld. En byrjunin var afleit og það var það sem drap okkur í kvöld.“

Eyjamenn eru á botni deildarinnar með eitt stig eftir fjórar umferðir, en Krisján sér enga ástæðu til að leggja árar í bát. „Við tökum það jákvætt út úr þessum leik að við sköpum öll þessi færi og þegar við förum að nýta þau þá kemur þetta til með að líta mun betur út. Við höldum áfram að vinna okkar vinnu,það þýðir ekkert annað. Þótt þetta sé pirrandi þá höldum við bara áfram“.

Hákon Ingi: Þetta var svakalegtVaramaðurinn Hákon Ingi Jónsson kom Fylkismönnum í 2-0 forystu í lok venjulegs leiktíma. Hann var að vonum ánægður með það. „Þetta var mjög sætt og gott að setja hann líka. Það var geggjuð tilfinning að sjá hann í netinu og ennþá betra eftir að þeir skora þarna í endann. Markið skipti þá meira máli.“

„Við unnum vel saman og vorum þéttir. Við áttum að setja nokkur mörk í byrjun leiks. Þetta var svakalegt, bara einhver veisla hérna í byrjun. Mér er drullusama þótt þeir hafi síðan legið á okkur í lokin, við kláruðum þetta.“

Fylkismenn hafa leikið vel í byrjun sumars. „Þetta er búið að byrja vel en það eru bara fjórir leikir búnir. Það telur ekkert að vinna bara tvo leiki í byrjun sumars,“ sagði Hákon Ingi.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira