Umfjöllun og viðtöl: FH - KA 3-1 │ Öruggur sigur FH á heimavelli gegn KA

Böðvar Sigurbjörnsson skrifar
Lennon í leik með FH í forkeppni Meistaradeildar Evrópu á síðustu leiktíð.
Lennon í leik með FH í forkeppni Meistaradeildar Evrópu á síðustu leiktíð. vísir/stefán
FH og KA mættust í kvöld í 4. umferð Pepsi deild karla á Kaplakrikavelli í Hafnafirði. Íslenska vorið minnti  leikmenn jafnt sem áhorfendur sem mættir voru á völlinn á að þeir þyrftu að bíða eitthvað aðeins lengur eftir sumrinu, því það blés og rigndi duglega á meðan á leiknum stóð.

Leikurinn fór ágætlega af stað og það voru KA menn sem áttu fyrstu færi leiksins á upphafs mínútum hans, sem þeir náðu þó ekki að nýta sér nægilega vel. Þegar leið á hálfleikinn komu heimamenn í FH sér betur inn í leikinn og voru sterkari aðilinn, fengu 2 til 3 mjög góð færi til að taka forystuna en allt kom fyrir ekki og staðan í hálfleik markalaus. Það þurfti ekki að bíða lengi eftir marki í síðari hálfleiknum. Þegar rétt rúmlega mínúta var liðinn af síðari hálfleik braut Guðmann Þórisson á Atla Guðnasyni innan teigs og Ívar Orri Kristjánsson dómari leiksins flautaði réttilega víti.

Á punktinn fór Steven nokkur Lennon sem skoraði örugglega úr spyrnunni og staðan orðin 1-0 fyrir heimamenn í FH. Gestirnir frá Akureyri virtust nokkuð slegnir út af laginu við þetta enda seinni hálfleikur varla kominn af stað og þeir lentir undir.

Þegar vallarklukkan var við það að sýna 70 mínútur bættu FH-ingar við öðru marki þegar Færeyingurinn snjalli Brandur Hendriksson Olsen fylgdi vel á eftir skoti Steven Lennon og staðan orðin vænleg fyrir heimaliðið.

KA menn voru þó ekki á því að gefast upp því þeir minnkuðu muninn á 80 mínútu með laglegu marki frá Elfari Árna Aðalsteinssyni og hleyptu lífi í leikinn. Lengra komust þó ekki því á 85 mínútu gerðu þeir sig seka um klaufalega mistök í vörninni sem FH-ingar refsuðu þeim samstundis fyrir.

Halldór Orri Björnsson sem þá var nýkomin inná sem varamaður komst inn í sendingu KA manna og renndi boltanum snyrtilega á Steven Lennon sem skoraði af miklu öryggi og um leið tryggði FH verðskuldaðan 3-1 sigur á Kaplakrikavelli.

Af hverju vann FH?

Þeir voru vel skipulagðir og sköpuðu sér hættulegri færi. Varnarleikurinn var sterkur og sóknaraðgerðir þeirra sköpuðu varnarmönnum KA liðsins oft á tíðum mikil vandræði.

Hverjir stóðu upp úr?

Færeyingurinn knái Brandur Hendriksson Olsen var gríðarlega góður í liðið FH og sýndi svo um munaði hversu öflugur leikmaður hann er. Einnig voru Atli Guðnason og Steven Lennon góðir í annars jöfnu liði FH-inga.

Hvað gekk illa?

KA mönnum gekk illa að nýta færin sín í byrjun leiks, það  átti eftir að koma í bakið á þeim í seinni hálfleik.

Hvað gerist næst?

FH heldur í ferðalag til Eyja og leika á móti ÍBV en KA menn fá Keflvíkinga í heimsókn til Akureyrar.

Ólafur Kristjánsson: Atli hefur í ansi mörg ár skilað sínu fyrir FH
Ólafur Kristjánsson kann að svara fyrir sig.
Ólafur Helgi Kristjánsson þjálfari FH var heilt yfir sáttur með leik sinna manna.

„Við vorum ekki nægilega klókir í byrjun leiksins og spiluðum ekki nægilega vel út úr pressunni, spiluðum svolítið mikið upp öðru megin, en þegar við færðum okkur út úr því fengum við nokkur góð færi og hefðum átt að vera yfir í hálfleik.“

„Lögðum áherslu á að halda boltanum niðri í síðari hálfleik.“

„Í hálfleik lögðum við áherslu á það að fara út úr pressunni og halda boltanum niðri í þessum vindi, það fannst mér takast vel, fengum þrjú góð mörk og strákarnir kláruðu þetta vel. „

„Atli hefur í ansi mörg ár skilað sínu fyrir FH.“

Atli Guðnason var í byrjunarliði FH í leiknum og átti skínandi góðan leik, þjálfari FH vissi vel hverju hann mætti búast við frá þessum reynda leikmann FH liðsins.

„Já Atli hefur í ansi mörg ár skilað sínu fyrir þetta lið og við vitum alveg hvað við höfum í honum, okkur fannst rétt á móti þessu liði að tefla fram fljótum leikmönnum frammi og mér fannst það takast vel hjá okkur“

„Verðskuldum þessi stig sem við erum komnir með“

Aðspurður um stigasöfnun FH liðsins eftir fyrstu fjórar umferðirnar sagði Ólafur liðið verðskulda þau stig sem það væri komið með.

„Við töpuðum á móti Blikum hérna á heimavelli þar sem þeir spiluðu mjög vel en hinir sigrarnir hafa verið verðskuldaðir hjá okkur. Ég er alltaf nokkuð sáttur þegar menn eru að leggja sig fram og við fáum góða útkomu, úrslitin eru afleiðing af því sem við gerum og það hefur verið svona nokkuð eftir bókinni.“ Sagði Ólafur Helgi Kristjánsson þjálfari FH að lokum.

Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA.visir/stefán
Srdjan Tufegdzic þjálfari KA var vonsvikin með tap sinna manna.

„Ég er mjög vonsvikinn með það að tapa þessum leik, seinni hálfleikurinn og þau mistök sem við gerðum þar kostuðu okkur þennan leik. Það er sérstaklega svekkjandi þar sem í fyrri hálfleik sýndum við góðan leik og með örlítið betri gæðum á síðasta vallarhelmingnum hefðum við getað farið með forystu inn í hálfleik.“

„Enn og aftur erum við of kaflaskiptir. Í hinum leikjunum höfum við ekki verið góðir í fyrri hálfleik en stigið upp í síðari hálfleik, en í dag byrjum við ekki vel í seinni hálfleik og það kostaði okkur tap í dag.“

Aðspurðu um stöðu liðsins eftir fyrstu fjórar umferðirnar sagði þjálfari KA þá vera að leita að stöðugleikanum í lið sitt þessa stundina.

„Við erum svona ekki ennþá búnir að finna jafnvægið sem við höfðum hérna áður og höfum við er svolítið upp og niður í leik okkar. Mér fannst leikurinn á móti ÍBV í síðustu umferð vera góður hjá okkur og við ætlum okkur að sýna meira af því sem við sýndum þar í næstu leikjum. „ Sagði Srdjan Tufegdzic þjálfari KA að leik loknum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira