Fótbolti

Torres: Þessi titill stærri en að vinna HM

Torres lyfti bikarnum með liðsfélögum sínum í Lyon í gær
Torres lyfti bikarnum með liðsfélögum sínum í Lyon í gær vísir/getty
Fernando Torres vann í gærkvöld Evrópudeildina með liði sínu Atletico Madrid. Hann sagði þann titil hafa þýtt meira en þegar hann varð heimsmeistari með Spáni 2010.

Torres hefur átt farsælan knattspyrnuferil, sló í gegn hjá Liverpool, vann Meistaradeild Evrópu með Chelsea og vann heimsmeistarakeppnina með spænska landsliðinu. Hann mun yfirgefa uppeldisfélagið Atletico í sumar eftir að hafa snúið aftur þangað sem þetta allt hófst í janúar 2015.

„Tilfinningalega séð þá er þessi titill sá stærsti,“ sagði Torres sem kom inn á sem varamaður í 3-0 sigrinum á Marseille í gærkvöld.

„Á ferlinum fékk ég tækifæri til þess að vinna marga titla. Ég var nógu heppinn að fá að spila með mörgum frábærum liðum og að vera af þessari kynslóð spænskra leikmanna sem vann allt sem hægt var. En allir hafa þann draum að vinna með sínu liði. Þegar ég fór hélt ég að það væri ekki hægt, en ef þú leggur hart að þér þá getur þú uppskorið frábæra hluti og verð ég að eilífu þakklátur.“






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×