Innlent

Um 50 manns taka þátt í leitinni að ferðamönnunum á Vatnajökli

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ekki næst sambandi við ferðamennina tvo.
Ekki næst sambandi við ferðamennina tvo. Vísir/Vilhelm
Um klukkan sjö í kvöld voru björgunarsveitir á Suður- og Austurlandi kallaðar út eftir að neyðarboð barst frá tveimur ferðamönnum á Vatnajökli, að því er fram kemur í tilkynningu frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg. 50 manns taka þátt í leitinni að mönnunum með einum eða öðrum hætti en nú er einblínt á að koma björgunarmönnum til þeirra á vélsleðum.

Ferðamennirnir höfðu skilið eftir ferðaáætlun hjá Safetravel áður en þeir héldu í ferð yfir jökulinn og eru auk þess með neyðarsendi með sér. Neyðarboðið barst frá Grímsvötnum en ekki næst samband við þá.

Ellefu björgunarsveitir voru kallaðar út og var björgunarsveitarfólk á leiðinni á jökulinn að leita að ferðalöngunum á vélsleðum og snjóbílum á níunda tímanum í kvöld. Ekki eru kjöraðstæður á jöklinum fyrir björgunarsveitarfólk en þar er nú snjókoma og þó nokkur vindur. Gera má ráð fyrir því að veður lægi ekki fyrr en í nótt.

Uppfært klukkan 22:20:

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir í samtali við Vísi á tíunda tímanum að nokkrir björgunarsveitarhópar séu komnir upp á jökulinn. Hóparnir stefna að punkti þar sem boð berast frá neyðarsendi ferðamannanna en ekki hefur enn náðst samband við þá. Davíð segir það þó eðlilegt að einhverju leyti.

Þá segir Davíð að alls séu um 50 manns sem hafi verið ræstir út á einn eða annan hátt vegna leitarinnar. Förin sækist þó hægt, að sögn Davíðs, en rok og suddi er á jöklinum og lélegt skyggni.

Davíð bjó ekki yfir upplýsingum um þjóðerni mannanna tveggja né hvenær þeir komu hingað til lands. Mennirnir voru þó búnir að vera í nokkurra daga ferð yfir jökulinn þegar þeir sendu neyðarboðin í kvöld en Davíð segir greinilegt að þeir hafi einhverja reynslu af ferðalögum á borð við þetta.

Uppfært klukkan 00:12:

Fyrstu hópar af sleðamönnum voru komnir upp í Grímsvötn þegar blaðamaður náði tali af Davíð skömmu eftir miðnætti. Davíð sagði leit hafna á svæðinu en enn bólaði ekkert á ferðamönnunum tveimur. Leiðindaveður er á jöklinum, þoka og hvassviðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×