Chelsea bikarmeistari eftir sigurmark Hazard

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Vísir/Getty
Chelsea er enskur bikarmeistari eftir eins marks sigur á Manchester United í úrslitaleiknum á Wembley í dag. Eden Hazard skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu í fyrri hálfleik.

Eftir nokkuð rólegar fyrstu tuttugu mínútur í leiknum gerði Phil Jones sig sekan um varnarmistök sem hleyptu Eden Hazard inn fyrir vörn United. Jones náði að elta Hazard uppi en var aðeins of seinn í tæklinguna og Michael Oliver dæmdi vítaspyrnu. Hazard fór sjálfur á punktinn, sendi David de Gea í vitlaust horn og kom Chelsea yfir.

Fátt annað markvert gerðist í frekar daufum fyrri hálfleik þar til á síðustu mínútunni þegar Phil Jones fékk upplagt tækifæri til þess að bæta fyrir mistök sín en skalli hans upp úr hornspyrnu Marcus Rashford fór framhjá.

Jose Mourinho hefur lesið yfir sínum mönnum í seinni hálfleik því þeir voru mun sterkari út úr leikhléinu og sóttu stíft að marki Chelsea. Thibaut Courtois þurfti nokkrum sinnum að hafa sig allan við að verja mark sitt og halda Chelsea í forystu.

Sílemaðurinn Alexis Sanchez kom boltanum í netið eftir aukaspyrnu en Michael Oliver dæmdi markið af vegna rangstöðu. Eftir dóminn ákvað hann að fá myndbandsdómarann til þess að fara aftur yfir atvikið og athuga hvort hann væri ekki sammála upphaflega dómnum, endursýningar sýndu að Sanchez var jú rangstæður og dómurinn réttur.

Marcos Alonso átti dauðafæri um miðjan seinni hálfleikinn þar sem hann var einn á móti de Gea en markmaðurinn sýndi að það er ekki að ástæðulausu hann sé leikmaður ársins hjá United á tímabilinu. Færið var eitt af fáum hjá Chelsea í leiknum, seinni hálfleikurinn fór að mestu fram á vallarhelmingi Chelsea.

Þrátt fyrir stórsókn United síðustu mínúturnar kom jöfnunarmarkið ekki og Chelsea er bikarmeistari. Antonio Conte getur andað léttar en þó er ekki víst að bikarinn sé nóg til þess að bjarga starfi Conte.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira