Erlent

Byssumaður stöðvaður á golfvelli Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Mikil viðbúnaður lögreglu var við Doral-klúbbinn í morgun eftir atburði næturinnar.
Mikil viðbúnaður lögreglu var við Doral-klúbbinn í morgun eftir atburði næturinnar. Vísir/AP
Lögreglan á Flórída skaut vopnaðan mann sem ruddist inn í klúbbhús golfklúbbs Donalds Trump Bandaríkjaforseta nærri Míamí í dag. Maðurinn er sagður hafa öskrað um Trump forseta og breitt bandarískan fána yfir afgreiðsluborð í móttökunni.

AP-fréttastofan segir að maðurinn hafi verið handtekinn í Doral-golfklúbbnum í nótt. Tilkynning hafi borist um vopnaðan mann þar klukkan 1:30 að staðartíma í nótt. Lögreglumenn hafi skipst á skotum við hann áður en þeim tókst að handsama hann.

„Hann öskraði og dældi upp úr sér einhverjum upplýsingum um Trump forseta og það er það sem við vitum að svo stöddu. Og hann var með bandarískan fána sem hann breiddi yfir afgreiðsluborðið,“ sagði Juan Perez, lögreglustjóri í Míamí-Dade-sýslu.

Trump var ekki á staðnum og leyniþjónusta Bandaríkjanna sem sér um öryggisgæslu fyrir forsetann og hans nánustu segir að enginn af þeim sem hún sér fyrir vernd hafi verið á svæðinu. Perez segir að einn lögreglumaður hafi særst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×