Skoðun

Hinsegin líf í Reykjavík

Gunnlaugur Bragi Björnsson skrifar
Góð borg skapar íbúum sínum kjöraðstæður til góðs lífs á öllum æviskeiðum. Aðstæður sem mæta fjölbreyttum þörfum ólíkra hópa án tillits til kyns, kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar, kyneinkenna, aldurs, fötlunar eða annarrar stöðu.

Það virðist eðli mannfólks að hræðast það sem sker sig úr. Um árabil var samkynhneigð ólögleg og hinsegin fólk fordæmt, útskúfað og því misþyrmt. Sem betur fer hafa frjálslynd sjónarmið smám saman orðið ofan á. En hver er þá ábyrgð víðsýns samfélags nútímans? Er allt slæmt gleymt og grafið eða getur verið að samfélag nútímans skuldi áður þögguðum hópum stuðning og rými til tjáningar?

Það er nauðsynlegt að börn fái góða fræðslu um fjölbreytileika mannlífsins og kynnist því að fólkið í borginni er hinsegin og svona. Sömuleiðis þarf að tryggja fagfólki sem starfar hjá Reykjavíkurborg fræðslu og ráðgjöf um ólíkar þarfir mismunandi hópa. Eldra hinsegin fólk, sem ekki skammast sín eða lifir í felum, er í raun nýlunda í íslensku samfélagi. Þessari jákvæðu þróun verður borgin að mæta með viðunandi aðbúnaði og þekkingu enda óásættanlegt að okkar elsti hópur mæti fordómum eða sé neyddur aftur í felur.

Borgin verður að styðja við og efla hinsegin mannlíf og menningu, nú sem aldrei fyrr. Það eykur fjölbreytileikann í borginni okkar og laðar að stóran hóp erlendra gesta á hverju ári. Við þurfum því miður ekki að líta langt til að sjá hvað gerist ef fjölbreytileikinn er settur á hakann.

Höfundur skipar 4. sæti á framboðslista Viðreisnar í Reykjavík

 




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×