Erlent

Árásarmaðurinn í Santa Fe leiddur fyrir dómara

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Árásarmaðurinn sem myrti tíu í framhaldskóla í Bandaríkjunum í gær komst yfir skotvopnin hjá föður sínum. Hann var leiddur fyrir dómara í gærkvöldi þar sem hann var ákærður. Minningarathöfn um þá sem létust var haldin í gær.

Árásarmaðurinn sem réðst til atlögu í Santa Fe framhaldsskólanum í Texas í gær og myrti tíu manns og særði tíu aðra er sautján ára og nemandi við skólann.

Í gærkvöldi var hann leiddur fyrir dómara eftir að yfirvöld höfðu ákært hann fyrir árásina en dómarinn neitaði honum um lausn gegn tryggingu.

Árásarmaðurinn heitir Dimitrios Paqurtzis og hefur árás hans í gær verið líkt við árásina sem átti sér stað í Flórída í febrúar þegar sautján nemendur og kennarar voru myrtir í Parkland framhaldsskólanum.

Lögregluyfirvöld í Texas greindu frá því í gær að Paqurtzis hafi komist yfir haglabyssu og skammbyssu sem voru í eigu föður hans og voru notuð til verknaðarins en fram kom að faðirinn hafi keypt skotvopnin með lögmætum hætt.

Það voru öryggisverðir í skólanum sem yfirbuguðu Paqurtzis, en við það slasaðist annar þeirra alvarlega þegar hann varð fyrir skoti. Á vettvangi árásarinnar í gær fundust einnig torkennilegir hlutir sem lögregla taldi að væru heimagerðar sprengjur sem Paqurtzis er sagður hafa gert.

Minningarathöfn um þá sem létust í gær fór farm við Santa Fe framhaldsskólann í gær þar sem ríkisstjóri Texas ávarpaði nemendur, kennara og fjölskyldur þeirra.

„Við verðum ekki bara hérna í dag og farin á morgun. Við verðum hérna daglega þangað til við höfum tryggt að skólayfirvöld í Santa Fe eru klár í að halda skólastarfi áfram og að það sé öruggt fyrir nemendur og kennara að snúa til baka,“ sagði Greg Abbott, ríkisstjóri Texas.

„Ég er í svo miklu sjokki að þetta hafi í alvörunni gerst. Maður hélt að þetta myndi aldrei gerast í skólanum sínum. Fyrir nokkrum mánuðum heyrðist í flugeldum á skólalóðinni og þá var honum lokað í varúðarskyni. Það er það sem við höfum komist næst því að standa frammi fyrir þessu. Svo eins og gefur að skilja er ég enn að reyna átta mig á þessu,“ sagði nemandi við minningarathöfnina í gær.


Tengdar fréttir

Áhugasamur um Trump og byssueign

Pagourtzis var ekki mjög virkur á samfélagsmiðlum en þær fáu stöðuuppfærslur og myndir sem hann birti á síðustu mánuðum hefðu átt að hringja viðvörunarbjöllum

Þyrmdi lífi þeirra sem hann kunni vel við

Dimitrios Pagourtzis var samvinnuþýður við yfirheyrslu lögreglu í gær en hann var handtekinn eftir að hann framdi ódæðisverkið í Santa Fe-framhaldsskólanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×