Viðskipti innlent

Hærri launakostnaður Icelandair áhyggjuefni

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Vél Icelandair lendir á Heathrow.
Vél Icelandair lendir á Heathrow. Vísir/Getty
Launakostnaður Icelandair Group nam 113 milljónum dala, sem jafngildir um 11,4 milljörðum króna, á fyrsta fjórðungi ársins og hækkaði um 31 prósent á milli ára. 



Er það umtalsvert meiri hækkun en greinendur höfðu gert ráð fyrir. Þróunin er áhyggjuefni að mati hagfræðideildar Landsbankans.

„Launakostnaður í flugi er reyndar alþjóðlegt áhyggjuefni en Icelandair má síst við miklum hækkunum,“ segir í viðbrögðum sérfræðinga Landsbankans við uppgjöri ferðaþjónustufyrirtækisins sem birt var á mánudag.

Sjá einnig: Segja launa­kostnað Icelandair Group vera fílinn í stofunni

Rekstrarkostnaður Icelandair Group var 286 milljónir dala á fyrsta ársfjórðungi og hækkaði um 23 prósent á milli ára. Þar munaði mestu um hærri launa- og starfsmannakostnað. Hagfræðideild Landsbankans hafði spáð því að sá kostnaður yrði um 98 milljónir dala á tímabilinu, sem er í takt við spár fleiri greinenda, en hann reyndist hins vegar vera 113 milljónir dala, líkt og áður sagði.

Benda sérfræðingar bankans á að útlit sé fyrir að launakostnaðurinn hækki um ríflega 100 milljónir dala á milli ára. Í afkomutilkynningu Icelandair Group er tekið fram að helmingur hækkunarinnar á launakostnaði skýrist af styrkingu íslensku krónunnar gagnvart dalnum, en nær allur launakostnaður samstæðunnar er í krónum.

Þá hafi stöðugildum samstæðunnar fjölgað á tímabilinu og laun samkvæmt samningum hækkað. Fjölgun stöðugilda megi rekja til annars vegar fjölgunar áhafna vegna vaxtar félagsins og hins vegar til þess að ákveðið hafi verið að „vinna ákveðnu vinnu með eigin starfsmönnum í stað þess að kaupa þjónustuna af þriðja aðila“.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×