Viðskipti innlent

Afkoma fyrsta ársfjórðungs undir væntingum hjá Arion banka

Sylvía Hall skrifar
Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka.
Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka. Vísir/Arion banki
Hagnaður samstæðu Arion banka á fyrstu þremur mánuðum ársins 2018 nam 1,9 milljörðum króna samanborið við 3,4 milljarða króna á sama tímabili 2017. Arðsemi eigin fjár var 3,6% samanborið við 6,3% fyrir sama tímabil árið 2017.

Heildareignir námu rúmlega 1.131 milljörðum króna í lok mars 2018 samanborið við  1.147,8 milljarða króna í árslok 2017 og eigið fé hluthafa bankans nam 204,1 milljörðum króna, samanborið við 225,6 milljarða króna í árslok 2017.

Eiginfjárhlutfall bankans var 23,6% í lok mars en var 24,0% í árslok 2017. Hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 nam 23,6% og var óbreytt frá árslokum 2017.

 

Ánægja viðskiptavina eykst með þægilegri bankaþjónustu

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, segir afkomu fyrsta ársfjórðungsins aðeins undir væntingum. Hann segir þó fjárhagslegan styrk bankans vera áfram góðan eins og eiginfjárhlutfall gefur til kynna.

„Arion banki hefur markað sér nokkra sérstöðu á íslenskum fjármálamarkaði með því að kynna til leiks fjölbreyttar og spennandi stafrænar nýjungar á sviði fjármálaþjónustu. Markmið okkar er að gera þjónustu okkar eins einfalda og þægilega fyrir okkar viðskiptavini og við frekast getum.“ segir Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri.

„Við kynntum á fyrsta ársfjórðungi meðal annars ný stafræn lánaferli fyrir skammtímalán og bílalán. Einnig þægilegar leiðir til að dreifa greiðslum á kreditkort og stofna sparnaðarreikninga. Við sjáum að með þægilegri bankaþjónustu eykst ánægja okkar viðskiptavina á sama tíma og við uppskerum aukna skilvirkni í okkar starfsemi. Nú er það svo að 96% snertinga okkar við viðskiptavini fara fram í gegnum stafrænar leiðir.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×